Frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld

Miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 15:46:44 (7104)


140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég treysti mér ekki til að fara með þau skilaboð sem hv. þm. Jón Bjarnason óskaði eftir því að ég kæmi hér á framfæri. En ég hef áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. Eitt er að hann verði sér til skammar einu sinni á sólarhring, en að gera það tvisvar sinnum á sama sólarhringnum [Hlátur í þingsal.] er fullmikið. Ég verð að segja að það stappar nærri því að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi orðið sínum flokki til skammar með þeirri ræðu sem hann hélt hérna áðan, að bera brigður á það að starfandi sjávarútvegsráðherra sé hæfur til þess að fara með mál af þessu tagi. Það finnst mér vera fyrir neðan allar hellur og (Gripið fram í.) endurvekur gamla fordóma. Ég vil að það komi hér skýrt fram að starfandi hæstv. sjávarútvegsráðherra var einmitt í þeim ráðherrahópi sem undirbjó þetta mál, var sérstaklega falið af ríkisstjórninni að undirbúa málið. 1. umr. er til þess að skýra málið, greina frá því um hvað það snýst og svara spurningum. Það er fyrst þegar hv. þingmaður fær ekki svör við spurningum sem hann getur komið og blakað stélinu svona.