Frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld

Miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 15:52:22 (7109)


140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil mótmæla því sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði hérna áðan að það gerðist aldrei að starfandi ráðherrar mæli fyrir málum. Ég hef oft mælt fyrir málum annarra ráðherra og aðrir ráðherrar hafa mælt fyrir mínum málum. Það er starfsvenja á Alþingi Íslendinga. Það er einfaldlega þannig að þegar ráðherrar þurfa í embættiserindum að fara til útlanda eru aðrir sem gegna fyrir þá öllum störfum þeirra. Ég er til dæmis núna starfandi velferðarráðherra. Og ég veit ekki betur en velferð landsmanna sé býsna góð þessa dagana. [Hlátur í þingsal.] Þetta er því enn ein aðferðin hjá Sjálfstæðisflokknum til að skjóta sér undan málefnalegri umræðu. Ég held hann megi þakka fyrir að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé í útlöndum miðað við þau tök sem hann endranær hefur á þeim flokki. Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu máli alveg eins og í stjórnarskrármálinu að verja hagsmuni, hann er að reyna að tefja og koma frá þeim breytingum sem við viljum koma í gegn, lýðræðislega kjörinn meiri hluti, einmitt gagnvart sjávarauðlindinni. Það er ekkert annað sem vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum. Ég þakka svo Framsóknarflokknum fyrir að (Forseti hringir.) lulla ekki að þessu sinni í kjölfar þeirra.