Frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld

Miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 15:58:57 (7114)


140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. „Eigi bregður mær vana sínum.“ Nú er hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir farin að stjórna þinginu eins og hennar er háttur. Ég vil þakka forseta þeim sem nú starfar fyrir röggsamlega fundarstjórn og fyrir að gefa hvergi eftir í því leikriti sem hér er leikið, sem er auðvitað þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að tefja rétt einu sinni, reyna að slá einhverjar keilur. Það var búið að gefa tóninn. Landssamband íslenskra útvegsmanna gerði það fyrir hönd sinna eigin hagsmuna. Kallarinn mikli, ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, hefur látið okkur vita á forsíðunum og gefið skilaboð beint til þingmanna Sjálfstæðisflokksins um það hver á að vera línan í þessu máli. Það er auðvitað í sjálfu sér ákveðin estetísk fullnægja í því að sjá að þetta gengur allt samkvæmt plani. Hafa hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson hagað sér nákvæmlega eins og Davíð Oddsson hefur skipað þeim (Forseti hringir.) fyrir að gera.