Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 17:18:15 (7143)


140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umframhagnaður er hagnaður umfram það sem almennt gerist í atvinnulífinu. Við getum líka notað kunnuglegri hugtök eins og framlegð og sannarlega er ekki verið að kalla eftir 70% af framlegðinni í greininni. Við núverandi aðstæður gæti ég ímyndað mér að talan sé um þriðjungur af þeirri framlegð sem um er að ræða. (Gripið fram í: 50%, 51%.) Það sem skiptir máli um gjaldtökuna er auðvitað hversu mikill hagnaður verður eftir. Ég held að HB Grandi, sem er vel rekið fyrirtæki, sé ágætt dæmi sem sýnir að þessi gjaldtaka tekur aðeins um einn fjórða hluta af gríðarlega miklum hagnaði. Nú þegar hagnaður í greininni getur hlaupið á 50–60 milljörðum kr. eru menn að tala um svipaðar stærðir af þeirri heildarhagnaðartölu, kannski fjórðung en engin 70%. Finnst hv. þingmanni ósanngjarnt endurgjald til þjóðarinnar að einn fjórði renni til hennar þegar afkoman er svo gríðarlega góð í sjávarútveginum?