Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 17:20:43 (7145)


140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gjaldtaka af umframhagnaði er ekki skattlagning á byggðir. Það er skattlagning á eigendur fyrirtækja vegna þess að það er skattlagning á það fé sem við slíkar aðstæður er oftlega tekið út úr fyrirtækjunum og notað til annarra fjárfestinga, t.d. í fjármálafyrirtækjum, bifreiðaumboðum eða öðrum slíkum hlutum. Þetta er þess vegna fyrst og fremst eigendagjaldtaka en enginn byggðaskattur.

Hvað varðar það að hagræða í greininni er ég almennt hlynntur hagræðingu en ég vek þó athygli á því að frumvarpið gerir ráð fyrir að gera minni kröfur til minni báta, undir 30 tonnum og undir 100 tonnum. Sömuleiðis að staðinn sé vörður um strandveiðarnar og nýliðum sköpuð tækifæri í leigupotti. Þannig að ég held ekki að frumvarpið miði að því að færa allar heimildir í eigu fárra aðila ef það er það sem hv. þingmaður var að spyrja um.