Veiðigjöld

Föstudaginn 30. mars 2012, kl. 14:13:10 (7600)


140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:13]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er fyrst og fremst að fjalla um veiðigjaldið sem slíkt. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að veiðigjaldstakan, bæði hvernig að henni er staðið og hversu háar upphæðir eru teknar, er náttúrlega hluti af heildarumgjörð fiskveiðistjórnar og rekstri sjávarútvegsins, bæði til sjós og lands þannig að horft er á þetta sem heild. Ég er fyrst og fremst að horfa á veiðigjaldið hér, ég er ekki á móti því að tekið sé hóflegt veiðigjald, en að þá sé fundinn réttlátur grunnur fyrir töku þess — hann verður kannski seint 100% réttlátur eins og önnur skattheimta — og horft til mismunandi útgerðarflokka og þess háttar. Það er vissulega lagt til í frumvarpinu án þess að það sé mjög vel útfært.

Ég horfi sérstaklega til sjávarbyggðanna. Sjávarbyggðir eru á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi og Suðausturlandi og reyndar alveg hringinn í kringum landið, en ég horfi sérstaklega til minni sjávarbyggðanna. Þá er hver króna mikilvæg sem hverfur út úr atvinnulífi á hverjum stað og inn í ríkissjóð. Ég er ekki að segja að ríkissjóður geti ekki komið með hana til baka með einum eða öðrum hætti en þá er ekki hægt að horfa á veiðigjaldið sem landsbyggðarskatt hvað það varðar. Við erum minnug þess hvernig var með raforkukerfið þegar því var steypt saman og felld út innri jöfnun á raforkuverði og dreifingu raforku, það átti að leiðrétta með ríkisframlögum úr ríkissjóði. En staðreyndin er sú að ríkissjóður hefur aldrei staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í þeim jöfnunaraðgerðum. Það er því miklu eðlilegra að samfélagið standi sem mest sjálft undir sér hvað þetta varðar, þess vegna (Forseti hringir.) er svo mikilvægt að þær tekjur sem myndast komi aftur með beinum hætti inn í viðkomandi samfélag.