Ætlað samþykki við líffæragjafir

Föstudaginn 30. mars 2012, kl. 15:40:43 (7614)


140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

476. mál
[15:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek undir þakkir hv. þingmanna til flutningsmanns, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Þetta er mjög merkt mál og mikilvægt að það náist sem fyrst í gegn. Hins vegar eru á því ákveðnir annmarkar sem ég ætla að fara í gegnum en um leið ætla ég að benda á lausn sem felst í því að hugsa út fyrir kassann. Í fyrsta lagi er til fólk, sem ég skil kannski ekki alveg, sem vill ekki gefa líffæri úr sér af trúarlegum, siðfræðilegum og félagslegum ástæðum eða jafnvel ótta við að vera ekki almennilega dautt þegar líffærið er tekið. Ég skil þetta ekki en ég virði þessar skoðanir af því að ég virði rétt einstaklingsins, herra forseti, það er mitt prinsipp í lífinu.

Ég held að það sé til miklu betri lausn á þessu. Af því að hér er lagt til að menn hafi látið í ljós vilja sinn til hins gagnstæða þá þarf að kanna hvort viðkomandi hafi einhvers staðar látið vilja sinn til hins gagnstæða í ljós áður en hægt er að gefa leyfi. Það þarf að gera af því að í ljós gæti komið þegar búið er að taka líffærið úr viðkomandi aðila að hann hafi neitað því einhvers staðar, í erfðaskrá eða einhvers staðar.

Þess vegna er miklu skynsamlegra, finnst mér, að nota skattkerfið, að þegar við teljum fram sé reitur þar sem stendur: Viltu gefa úr þér líffæri? Upplýsingar hér og þá kemur rammi sem upplýsir hvað það þýðir og menn skrifa: Já. Þá liggur það fyrir á einum stað hverjir eru sammála því að gefa líffæri úr sér. Ég hugsa að flestir mundu segja já. — Ég hef til dæmis alltaf gefið blóð, mér finnst það sambærilegt. — Þá lægi það fyrir og lögregla og hjúkrunarlið fengju aðgang að þessari skrá og gætu strax ákveðið að viðkomandi aðili hefði samþykkt þetta, það lægi fyrir. Það þyrfti ekki að leita til aðstandenda, það þyrfti ekki að leita neitt, þetta lægi bara fyrir. Ég tel að þetta sé miklu betri lausn og ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar ætti að skoða þessa leið.