140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa o.fl.

604. mál
[16:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér leið eins og lömdum hundi undir þessari ágætu ræðu hv. þingmanns en ég er hjartanlega sammála að öllu leyti.

Ég ætla að vekja eftirtekt hans á einu atriði og það er að samningurinn millum EFTA og Flóabandalagsins var undirritaður 2009. Samningurinn við Hong Kong, Kína var undirritaður á miðju sumri 2011 og það munar þessum tveimur árum. Ég get sagt hv. þingmanni frá því að breytingin á viðhorfi til tengsla fríverslunarsamninga og mannréttinda hefur gjörbreyst á síðustu fjórum árum mundi ég telja. Það var allt annað fyrir mig að koma sem ráðherra á þessa fundi eftir töluvert hlé frá þeim. Ég settist þarna fyrst árið 1991 í hið fyrra skipti sem ég tilheyrði nefndinni, svo kom ég þar aftur upp úr 2005, og munurinn frá fyrstu árunum var gríðarlegur. Nú tala menn þó alveg fullum fetum um tengsl þarna á milli. Ríki — ég ætla ekki að nefna þau — í okkar hópi sem áður fannst út í hött að tengja þetta saman eru nú á meðal þeirra sem eru okkur algjörlega sammála. En það munar um þessi tvö ár.

Ég vona því að þegar við gerum næstu kynslóðar samning við Flóabandalagið kunni hv. þingmaður að sjá einhverja bragarbót þar á. Hins vegar veit hann það jafn vel og ég að ríkin sem tilheyra þessu ágæta bandalagi, sem á því miður ekkert skylt við þá ágætu jafnaðarmannahreyfingu sem hefur að verulegu leyti mótað það Flóabandalag sem hv. þingmaður prísaði verðskuldað hér áðan, þau standa ekki beinlínis upp og klappa þegar maður nefnir við þau mannréttindi.