Aðildarviðræður við ESB

Mánudaginn 16. apríl 2012, kl. 15:07:14 (7651)


140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, í fyrsta skipti held ég hljóti að vera, að beint sama sem merki er milli þess að slíta viðræðum við Evrópusambandið og að slíta þessu stjórnarsamstarfi. Það staðfesti hæstv. ráðherra áðan svo að nú þurfa menn ekki lengur að velkjast í vafa um hvað ræður afstöðu hæstv. ráðherra til þessarar umsóknar, þ.e. að styggja ekki samstarfsflokkinn um of. Það má sem sagt fórna öllu af stefnumálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að Samfylkingin skröltist áfram með Vinstri græna í ríkisstjórn.

En þegar þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma, um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, lýsti hæstv. ráðherra því ítrekað yfir að á hvaða tímapunkti sem er kynni að vera ástæða til að endurskoða umsóknarferlið, hætta við það ef menn til að mynda sæju að ekki hefði náðst ásættanlegur árangur í viðræðunum. Nú velti ég fyrir mér hvað þurfi til að hæstv. ráðherra geti komist að þeirri niðurstöðu að árangur sé ekki nægilegur eða að umsóknin sé komin á einhvers konar endastöð.

Við eigum í harðvítugri fiskveiðideilu við Evrópusambandið sem er ekki að fara að gefa okkur neinn afslátt af sjávarútvegsmálum og er í raun ekki í aðstöðu til að ræða sjávarútvegsmál á næstunni vegna þess að það er sjálft að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína.

Það er skollin á heil heimssöguleg krísa vegna evrunnar og hvernig haldið hefur verið á efnahagsmálum innan Evrópusambandsins og sér ekki fyrir endann á því. Nú er Evrópusambandið komið í málaferli við Ísland, vegur að íslenskum hagsmunum með fruntalegum hætti, eins og hæstv. ráðherra orðaði það eðlilega. Hvað telur hæstv. ráðherra eðlilegt að láta bjóða sér og þessari ríkisstjórn og landinu, þjóðinni, af hálfu Evrópusambandsins áður en hann kemst að því að það sé kannski kominn sá punktur sem hann nefndi, þegar hann talaði fyrir umsókn, að slíta beri eða að minnst kosti fresta viðræðum?