Mannréttindamál í Kína

Mánudaginn 16. apríl 2012, kl. 15:14:59 (7655)


140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

mannréttindamál í Kína.

[15:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að beina spurningu til hæstv. utanríkisráðherra varðandi væntanlega heimsókn forsætisráðherra Kína sem er að koma hingað næstkomandi föstudag. Það eru mjög vaxandi áhyggjur af auknu ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni, ofbeldi sem hefur meðal annars leitt til þess að 33 munkar og nunnur hafa kveikt í sér í örvæntingu síðan 2011. Það hefur gætt mjög vaxandi hörku gagnvart friðsömum mótmælum í Tíbet en í byrjun árs voru sex mótmælendur myrtir og yfir 60 særðir af öryggissveitum kínverskra yfirvalda. Kínversk yfirvöld ástunda endurmenntunarþvinganir á munkum og nunnum þar sem þau eru þvinguð til að fordæma andlegan leiðtoga sinn Dalai Lama og kínversk yfirvöld eru að þvinga tíbeskan almenning til aðlögunar við kínverska menningu með því meðal annars að gera kínversku að móðurmáli Tíbeta þar sem tíbesk börn eru þvinguð til að læra og tala kínversku í stað síns eigin móðurmáls.

Hreyfingin mun leggja fram þingsályktunartillögu, sennilega á morgun, þar sem þinginu verður boðið upp á að álykta um þessa heimsókn en þangað til vil ég óska eftir því að utanríkisráðherra lýsi afstöðu sinni til kínverskra stjórnvalda varðandi þessi mál og hvort hann muni beita sér fyrir því, á þeim fundum sem hann og aðrir munu eiga með forsætisráðherra Kína, að lýsa yfir áhyggjum gagnvart þessum grófu mannréttindabrotum og þessum yfirgangi gagnvart þjóð sem er verið að meðhöndla með sama hætti og gert var við indíána Norður-Ameríku fyrir um 200 árum og við blökkumenn í Suður-Afríku fyrir um tveimur áratugum. Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessara mála og til þessa framferðis kínverskra stjórnvalda og mun hann með afgerandi hætti lýsa yfir andúð sinni á þessum aðferðum?