Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 15:26:05 (8636)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en koma sjónarmiðum á framfæri varðandi Ríkisútvarpið. Margt hefur komið fram í ræðum þingmanna, m.a. um hversu erfitt það er fyrir Ríkisútvarpið að uppfylla þær skyldur að vera hlutlaus miðill sem fjallar jafnt um öll mál. Margoft hefur það komið í ljós á liðnum missirum og talsvert verið tekið til umræðu úti í samfélaginu að mörgum finnst halla verulega á í umræðunni. Margir hafa verið að skoða það og við framsóknarmenn höfum svo sem gert það á þinginu líka, bæði í ræðupúlti og í samtali við ríkisstofnunina. Þess er skemmst að minnast að undanfarna sólarhringa, eins og reyndar oft áður á þingi, hefur umræðan snúist dálítið um Evrópusambandsaðildarviðræðurnar sem hafa því miður gegnsýrt allt samfélagið. Þau átök og þær fylkingar sem hafa tekist á eru miður því að það er ekki það sem við hefðum þurft á að halda á þessu kjörtímabili en þannig er það engu að síður. Mörgum finnst halla verulega á hlutleysi Ríkisútvarpsins í því máli.

Ég ætlaði reyndar ekki að ræða þann þáttinn hér en geri mér grein fyrir því að það er erfitt að uppfylla þær skyldur. Það er líka erfitt fyrir Ríkisútvarpið að uppfylla þær skyldur að koma boðum, fréttum og menningartengdu efni sem og afþreyingu til landsmanna allra. Ég ætlaði að nota nokkrar mínútur af ræðu minni, frú forseti, til að ræða um þann þátt.

Að mínu viti voru það skref aftur á bak þegar svæðisútvörpin voru lögð af. Í stað þess að efla þau og láta til dæmis verða að veruleika að starfandi væri svæðisútvarp á Suðurlandi voru stöðvarnar meira og minna lagðar af á landinu öllu. Ég held að almannarómur á landsbyggðinni sé að það hafi verið mjög neikvætt skref.

Annar þáttur sem felst í því að tryggja eðlilegan flutning efnis til landsmanna allra er dreifikerfið. Það er stór spurning hvernig því verður svarað í framtíðinni. Það eru alltaf að koma fram nýjar og nýjar tæknibreytingar. Núna stendur til dæmis til hjá sjónvarpi allra landsmanna að hætta útsendingum nema á stafrænu formi frá og með næstu eða þarnæstu áramótum.

Ég óttast það mjög að þeir sem ekki njóta þess að hafa beinlínutengingar í gegnum ljósleiðara, það eru mörg stór svæði á landinu, muni þurfa að nýta örbylgjutæknina eingöngu sem er gölluð. Það eru truflanir. Ég bý sjálfur við það og er þó á nokkuð þéttbýlu svæði. Það er ekki möguleiki að senda sjónvarpsefni eða fjarskipti í gegnum símalínur þar, gamlan koparstreng yfir 10 km leið frá símstöð. Það væri þá frumskilyrði að sett yrði ljósleiðaratenging um allt. Þetta tengist auðvitað fjarskiptum og fjarskiptasjóður hefur það hlutverk að fara inn á svæði sem ekki eru svokölluð markaðssvæði með dýrari og flóknari tæki og tækni, gervihnattasendingar og annað. Það er ágætt, en eftir sem áður býr kannski stór hluti landsins við mun lakari skilyrði til að móttaka efni í gegnum sjónvarp, jafnvel útvarp, hvað þá önnur fjarskipti.

Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé ekki akkúrat hlutverk ríkisins að tryggja þessa dreifiveitu með einhverjum hætti. Það ætti að vera verkefni okkar á næstu árum í stað þess sem nú er verið að ræða í sambandi við fiskveiðistjórnarfrumvarpið þar sem taka á verulega hlutdeild af þeim fjármunum sem verða til í sjávarplássunum á landsbyggðinni og færa í ríkiskassann til Reykjavíkur. Hefði ekki verið nær að menn hugsuðu það betur eða upp á nýtt að stærri hluti af því veiðileyfagjaldi sem til fellur yrði nýttur til uppbyggingar á slíkum kerfum til að tryggja jafnræði allra þegnanna? Dæmi um það væri einmitt að tryggja dreifikerfi útvarps og sjónvarps fyrir utan auðvitað símkerfið. Það ætti þá að vera með einum eða öðrum hætti í ríkiseigu. Þarna væri virkilega tækifæri. Ég hefði gjarnan viljað sjá skýra forskrift í þessu frumvarpi og jafnvel að menn tækju slík skref í áætlunum framtíðarinnar, sem ég hef svo sem ekki séð og ekki heyrt talað um nema á tyllidögum.

Að öðru leyti held ég að sú skoðun sé almennt ríkjandi að við eigum að hafa öflugt ríkisútvarp sem tryggir öllum landsmönnum flutning á skemmtiefni og afþreyingu, menningartengdu efni sem og fréttum. Það verður alltaf hinn vandasami hluti starfseminnar að tryggja að hún sé eins hlutlaus og hægt er. Það er sjálfsagt að fara yfir það með hvaða hætti það gerist best á tæknilegan eða stjórnsýslulegan hátt. Ég er ekki viss um að sú leið sem við erum að fara í dag sé endilega sú réttasta. Það er margt sem bendir til þess að við höfum villst af leið síðustu missirin þó að ég ætli svo sem ekkert að bera það saman við fyrri tíma, það getur vel verið að menn upplifi það á hverjum tíma að ekki sé hlutlaus umfjöllun.

Það er klárlega verkefni stjórnenda, forstöðumanna og ráðherra sem bera ábyrgð á málaflokknum að velta fyrir sér á hverjum einasta morgni hvort starfsemin fullnægi kröfum nægilega vel.

Ég held að það væri áhugavert fyrir nefndina sem tekur málið til umfjöllunar að velta því alvarlega fyrir sér með hvaða hætti sé hægt að tryggja dreifikerfið þannig að allir landsmenn sitji við sama borð, ekki síst í ljósi þess að þær tæknibreytingar sem við höfum horft upp á undanfarin 10, 20 ár verða sífellt örari. Munurinn á því að vera með gamalt kerfi eða gamlan veg, gamla hestaslóð, miðað við háhraðabrautir nútímans verður alltaf meiri og meiri og skilur þar af leiðandi að jafnræði þegnanna hvað þetta varðar.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri að þessu sinni, frú forseti, um þetta efni og vona að nefndin taki það til umfjöllunar.