Þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 19:08:29 (8673)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta.

695. mál
[19:08]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vona að það gangi þokkalega hjá mér að mæla fyrir þessu máli, ég hef átt við töluvert mikinn hósta að stríða í dag, en ég vona að ég nái að komast í gegnum þessa framsögu.

Þetta er hins vegar mjög mikilvægt mál og ég þakka kærlega fyrir tækifærið að fá að mæla fyrir því. Hér er um að ræða frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Flutningsmenn að þessu máli eru allir þingmenn Framsóknarflokksins og við leggjum mikla áherslu á þetta mál. Þarna er verið að leggja til breytingar á fjöldamörgum lögum sem við teljum að sé nauðsynlegt að fara í til að við getum tekið fyrstu skrefin í áttina að því að afnema verðtrygginguna eins og hún snýr að neytendum á Íslandi, og ná tökum á efnahagsstjórninni.

Eins og við þekkjum öll var gífurleg verðbólga á Íslandi á 8. og 9. áratugnum. Fjármálafyrirtækjum var ekki frjálst að ákvarða vexti til viðskiptavina og sparifé almennings brann upp í verðbólgunni. Orsakir þessarar verðbólgu voru þá taldar vera ytri áföll, þaninn vinnumarkaður, hagsmunir skuldara, gengisfellingar stjórnvalda og seðlaprentun.

Viðbrögð stjórnvalda við neikvæðri raunávöxtun voru verðtrygging fjármálagerninga. Fyrst upp úr 1955 með verðtryggingu húsnæðislána að hluta. Árið 1964 var byrjað að bjóða verðtryggð spariskírteini og árið 1966 voru lög sett um almenna verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Með setningu laga um stjórn efnahagsmála o.fl., nr. 13/1979, var lögfest verðtrygging almennra inn- og útlána sem og verðtrygging launa. Ég vil leggja áherslu á að þetta endurspeglar enn á ný að verðtryggingin, að okkar mati, hefur alltaf tengst og verið bundin þessum böndum við stjórn efnahagsmála. Lögin voru talin ákveðin lausn hvað varðaði stjórn efnahagsmála en markmið laganna voru hins vegar mun víðtækari. Lögin voru aðeins hluti af þeim tillögum sem lágu fyrir, að setja á verðtryggingu inn- og útlána og launa, og voru kannski að vissu leyti ákveðin tegund af neyðarlögum á sínum tíma. Markmið laganna voru að tryggja atvinnuöryggi, draga úr verðbólgu og stuðla að jafnvægi og framförum í þjóðarbúskapnum. Þeim markmiðum átti að ná með þjóðhagsáætlunum, samræðum við aðila vinnumarkaðarins, verðtryggingu inn- og útlána og sparifjár landsmanna, verðtryggingu launa og tillögum til að auka verðskyn neytenda. Þannig var núverandi fyrirkomulagi verðtryggingar komið á með tengingu verðbólgu og verðbótaþáttar vaxta. Í ákvæði til bráðabirgða í lögunum var skilgreint hvernig ætti að standa að útreikningi verðbóta á höfuðstól.

Verðtryggð lán voru framan af tengd svokallaðri lánskjaravísitölu sem samanstóð af blöndu vísitölu neysluverðs og byggingarvísitölu, og síðar einnig launavísitölu. Frá 1995 hafa verðtryggð lán verið tengd vísitölu neysluverðs einni. Eftir efnahagshrunið hefur lántakendum síðan verið boðið að tengja verðtryggð lán sín greiðslujöfnunarvísitölu til að lækka greiðslubyrði tímabundið.

Við höfum gert margar breytingar á fyrirkomulagi verðtryggingar á Íslandi frá því að henni var komið á. Má þar helst nefna afnám verðtryggingar launa, sem var talin verðbólguhvetjandi með víxlhækkunum verðlags og launa, viðmiðunarvísitölum hefur verið breytt þrisvar sinnum til að endurspegla betur raunverðsbreytingar og létta greiðslubyrði lántakenda, afnumin var verðtrygging til skemmri tíma á bæði inn- og útlánum þar sem hún var talin hamla virkni peningastefnunnar og verðtrygging fjárskuldbindinga í almennum samningum var gefin frjáls. Vaxtafrelsi var svo innleitt 1986. Nú byggist verðtrygging lána á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og reglum Seðlabankans nr. 492/2001, með síðari breytingum.

Í hinum vestræna heimi, þeim löndum sem við berum okkur saman við, þekkist ekki viðlíka tenging ýmissa þátta við vísitölu eins og hér á landi og má einna helst finna að einhverju leyti svipaða stöðu í löndum eins og Brasilíu, Síle og Ísrael. Hlutfallið hefur þó verið langhæst hér á landi eins og fram kemur í skýrslu verðtryggingarnefndar frá 2011.

Árið 2001 tóku íslensk stjórnvöld og Seðlabanki Íslands upp 2,5% verðbólgumarkmið, með 1,5% þolmörkum. Árangurinn hefur verið vægast sagt slakur og verri en í öðrum ríkjum með sambærilegt fyrirkomulag. Þetta hefur Seðlabankinn raunar sjálfur viðurkennt. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna í skýrslu Seðlabankans um peningastefnu hér á landi, Peningastefnan eftir höft:

„Forsenda þess að peningastefnan beri árangur er að miðlun vaxtabreytinga Seðlabankans frá skammtímamarkaðsvöxtum til langtímamarkaðs- og útlánavaxta og að lokum til raunhagkerfisins sé sæmilega kerfisbundin og fyrirsjáanleg. Töluvert hefur skort á að svo hafi verið hér á landi á undanförnum árum.“

Í skýrslu verðtryggingarnefndar, þar sem einmitt er vitnað í skýrslu Seðlabankans, segir:

„Ýmsir sérfræðingar hafa gagnrýnt að miðlun vaxtastefnu Seðlabankans hafi verið nær óvirk fyrir hrun vegna almennrar notkunar verðtryggingar, mikillar erlendrar lántöku og auðvelds aðgengis að lánsfé í gegnum Íbúðalánasjóð.“

Þarna er vísað til hagfræðinga á borð við Ásgeir Jónsson, Friðrik Má Baldursson, Jón Daníelsson og Gylfa Zoëga sem hafa allir skrifað um þetta.

Tengsl stýrivaxta Seðlabankans, þ.e. skammtímamarkaðsvaxta Seðlabankans sem eru helsta tækið til að halda sig við verðbólgumarkmiðin, og síðan langtímamarkaðs- og útlánavaxta þar sem meginþorri lána er í formi verðtryggðra jafngreiðslulána eru óljós, sérstaklega þar sem verðbótaþátturinn hefur í hinu verðtryggða íslenska kerfi verið tekinn að láni og bætist við höfuðstól en lagaágreiningur hefur verið um þessa útfærslu að undanförnu.

Gallar verðtryggingarinnar urðu bersýnilegir við hið mikla verðbólguskot sem fylgdi í kjölfar hruns íslensks efnahagslífs árið 2008. Verðbólga fór hæst í 18,6% í janúar 2009 og höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað mikið.

Í dag í óundirbúnum fyrirspurnum bar hv. þm. Bjarni Benediktsson einmitt upp þá fyrirspurn hvort þetta væri í raun viðvarandi ástand á Íslandi, hvort við værum búin að sætta okkur við það að hér væri einhvers staðar í kringum 6% verðbólga og að ekki væri gripið til aðgerða til að reyna að halda sig við verðbólgumarkmiðin sem sett voru árið 2001.

Afleiðingin af þessu er sú að hækkun höfuðstóls hefur bæst við atvinnuleysi sem íslenskur almenningur hefur þurft að upplifa, minnkandi kaupmátt, hækkandi vöruverð og lækkandi fasteignaverð og aukið þannig mjög byrðar íslensks almennings. Það hefur einmitt verið bent á að þegar hrun verður á borð við það sem hér varð má segja að ákveðin eðlileg og náttúruleg leiðrétting þurfi kannski að fara fram. Í íslensku samfélagi ríkti bóluástand þar sem eignir voru algerlega ofmetnar og við hrunið hefði átt að verða leiðrétting á því en hún hefur ekki átt sér stað í nægilega miklum mæli. Hún er að einhverju leyti að koma til í gegnum afskriftirnar í bankakerfinu en hvað varðar helstu skuldir heimilanna, fasteignaskuldirnar sem eru að stærstum hluta verðtryggðar, hefur þessi leiðrétting ekki átt sér stað vegna þess að lánin eru verðtryggð.

Eitt er líka áhugavert sem maður hefur velt fyrir sér og það er að þó að verðgildi íslensku krónunnar, sem verðtryggingunni er ætlað að tryggja, hafi minnkað þegar við förum út fyrir landsteinana má jafnvel halda því fram að verðgildi peninga á Íslandi hafi að mörgu leyti aukist ef maður á þá á annað borð. Ég hef til dæmis nefnt Framtakssjóð Íslands. Ef maður skoðar eignasafn Framtakssjóðsins núna þá sést að hann hefur eignast gífurlegar eignir fyrir mjög litla peninga, þannig séð. Fyrir 33 milljarða hefur hann eignast stóran hlut eða jafnvel 100% eignarhlut í nokkrum stærstu og þekktustu fyrirtækjum Íslands, fyrir svipaða upphæð og við notum árlega í rekstur Landspítalans. Þarna virðist vera mikið ójafnvægi.

Mikil neikvæðni er í íslensku samfélagi gagnvart verðtryggingunni. Þetta hefur verið rannsakað og í könnun sem Capacent Gallup vann fyrir Hagsmunasamtök heimilanna kom fram að 80% svarenda voru hlynnt afnámi verðtryggingar. Í könnun Íbúðalánasjóðs árið 2010 um viðhorf til húsnæðismála kom fram að 66,3% settu afnám verðtryggingar í 1.–3. sæti um þætti sem væri brýnast að ná fram til að bæta húsnæðiskjör fólks í dag.

Í skýrslu verðtryggingarnefndar, sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði og þar sem ég var formaður, var lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

1. Að forsenda þess að ná tökum á verðbólgu væri ábyrg stjórnun efnahagsmála. Því þyrfti að bæta hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja.

2. Að tryggja þyrfti fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum og skuldabréfum. Hluti af því væri útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og að Íbúðalánasjóður byði upp á óverðtryggð húsnæðislán.

3. Að hvetja yrði til sparnaðar vegna kaupa á fasteign og búseturétti.

4. Að efla yrði fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku, og neytendavernd til að sporna við ofskuldsetningu og áhættu tengda ólíkum lánaformum.

Þetta voru tillögur nefndarinnar, en verkefni hennar var að leita leiða til að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi. Þetta voru þeir áherslupunktar sem allir nefndarmenn komu sér saman um. Þegar hefur verið brugðist við tveim punktum sem nefndin varð sammála um, annars vegar að gefa Íbúðalánasjóði leyfi til að lána óverðtryggt, sem sjóðurinn er að undirbúa, og síðan er búið að samþykkja á þinginu þingsályktunartillögu um hvernig við getum aukið neytendavernd á fjármálamarkaði.

Í séráliti mínu, Arinbjarnar Sigurgeirssonar, Hrólfs Ölvissonar og Lilju Mósesdóttur við skýrslu verðtryggingarnefndar voru nokkrar viðbótartillögur. Tillögur sem sneru að núverandi lánum voru að setja 4% þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli og lækka raunvexti, meðal annars með endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna. Tillögur vegna nýs húsnæðislánakerfis og almennra aðgerða voru að hefja innleiðingu óverðtryggðs húsnæðislánakerfis, fjölga búsetuformum, bæta efnahagsstjórn, endurskoða fyrirkomulag lífeyrissparnaðar, hvetja til sparnaðar og bæta fjármálalæsi og neytendavernd.

Það er afstaða okkar flutningsmanna þessa frumvarps að breytt fyrirkomulag verðtryggingar á Íslandi sé nauðsynlegt til að koma á meiri stöðugleika. Allt annað er ávísun á áframhaldandi þjóðhagslegt ójafnvægi og uppgjöf í baráttunni við verðbólguna. Koma verður á umbótum sem tryggja að allir hafi sameiginlega ábyrgð og hagsmuni af lágri verðbólgu, auka skilvirkni efnahagsstjórnar og auka fræðslu og samkeppni um neytendalán. Á sama tíma verður að taka tillit til þess að fjöldi heimila er í greiðsluerfiðleikum og afnám verðtryggingar getur leitt til þyngri greiðslubyrði. Ríkissjóður verður jafnframt að axla sína ábyrgð á ábyrgri efnahagsstjórn.

Því er lagt til í þessu frumvarpi að sett verði þak á hámarkshækkun verðtryggingar með það að markmiði að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi og draga úr vaxtakostnaði og skuldsetningu heimilanna. Óheimilt verði að hækka gjöld eða tekjur ríkissjóðs á grunni almennrar verðlagsþróunar, samanber vísitölu neysluverðs, nema sérlög og samningar liggi þar að baki. Grundvöllur ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna verði endurskoðaður og Seðlabanka Íslands falið að setja lánastofnunum reglur um verðtryggingarjöfnuð, til að tryggja að þær hafi ekki hag af því eða græði hreinlega á því ef það er verðbólga, setja þeim reglur um hámark veðhlutfalls og um lengd lánstíma fasteigna og lóða, og að efnahags- og viðskiptaráðherra vinni frumvarp um stjórn efnahagsmála sem feli í sér tillögur að fleiri og ríkari heimildum til stjórnar efnahagsmála, þ.e. svokölluð þjóðhagsvarúðartæki og að þau verði til staðar fyrir Seðlabanka Íslands.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gildistaka verði við samþykkt frumvarpsins en jafnframt að lögin taki til neytendasamninga sem hafa þegar verið gerðir. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að kveða skýrt á um það og taka fram að með tillögunum í frumvarpinu sé lagt til að byrðunum með vísitöluhækkunum sé skipt og enn fremur að ekki sé gengið of langt með því að setja 4% hámark á verðtryggingu.

Þrátt fyrir það sem rætt var fyrr í dag hefur reynslan sýnt að vísitala síðustu 20 ára hefur aðeins farið um það bil átta sinnum yfir 4% ársverðbólgu. Þak á 4% ársverðbólgu hefði þannig leitt til 3,5% raunávöxtunar af láni með 5,1% fasta vexti á þessu tímabili. Þau tæki sem við leggjum til að Seðlabankinn fái ættu í raun að styðja það enn frekar.

Fordæmi eru fyrir þaki á hækkun verðbóta í lögum nr. 30/1972, þar sem sett var 7,75% þak á hækkun verðtryggingar á húsnæðislán. Í dómi Hæstaréttar nr. 53/1990 er bent á að gera má ráð fyrir að breyting kunni að verða á grundvelli og/eða útreikningi verðtryggingar, nema fyrirvari sé gerður um annað í lánssamningum. Í dómi Hæstaréttar nr. 600/2012 er bent á að breyting eða uppgjör á lánssamningi verði að vera til framtíðar líkt og hér er lagt til.

Við flutningsmenn teljum því að hér sé meðalhófs gætt og lánveitendum gefinn aukinn hvati til að hætta að veita neytendum verðtryggð lán, auk þess sem nauðsynlegt sé að jafna út byrðar verðbólgu, m.a. með auknum möguleikum til að ná stjórn á efnahagsmálum.