Neytendalán

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 18:23:18 (8753)


140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var ansi áhugavert að hlusta á þessi andsvör. Þau skýra kannski hve stórt mál er hér um að ræða. Samkvæmt umsögn um frumvarpið og því sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra er hér um að ræða einkum þrjá þætti sem vega þungt: Í fyrsta lagi eftirlit með smálánum og þeim fyrirtækjum sem því sinna. Fyrirtækin eru víst fimm hér á landi og er afskaplega mikilvægt að fara vel og gagnrýnið yfir þessi mál. Í öðru lagi eftirlit með lánamiðlurum en undir þá falla allir þeir sem bjóða upp á fjármögnun á hinu keypta fyrir hönd þriðja aðila, eins og t.d. bílasalar, húsgagnasalar og raftækjaverslanir. Sem dæmi um slíka lánasamninga má nefna raðgreiðslusamninga eins og kreditkortafyrirtækin veita. Í þriðja lagi upplýsingagjöf til neytenda sem er afskaplega stórt atriði. Það er mjög mikilvægt að fara yfir það, en ég held að það væri svolítið skrýtið ef við notuðum ekki tækifærið í tengslum við þetta frumvarp og skoðuðum rétt neytenda. Í þeirri umræðu sem verið hefur í þingsal, en aðallega þó í hv. þáverandi viðskiptanefnd og nú að litlu leyti í nýrri hv. efnahags- og viðskiptanefnd, hefur mikið verið rætt um að við séum eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur saman við þegar kemur að neytendavernd á fjármálamarkaði. Það eru ekki bara upplýsingar heldur líka réttindi neytenda.

Hér voru gerðar örstuttar athugasemdir áðan og andsvör en hv. þm. Eygló Harðardóttir spurði hæstv. ráðherra út í mál sem virkar lítið en er í raun stórt og snýr að því hvernig lánin eru reiknuð út og hlutfallsreikningar í tengslum við það. Ég ætla ekki að fara yfir það nákvæmlega hér en þessir hlutir skipta alveg gríðarlega miklu máli. Við höfum séð það í endurreikningi á gengislánum og öðru slíku að svo virðist sem neytendur hafi mjög lítinn rétt. Síðan verður það bara að segjast að eftirlitið er fullkomlega tannlaust og bitlaust og tekur ekki á þessum málum. Fjármálaeftirlitið er dæmi um eftirlit sem hefur gríðarlega mikla fjármuni, svo það sé bara sagt, ég veit ekki til þess að nein önnur stofnun sem hafi fengið viðlíka fjármuni og auknar fjárveitingar og Fjármálaeftirlitið eftir bankahrun. Þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið eigi að sinna þessum þætti að hluta til hefur það til dæmis aldrei tekið út eða skoðað eða gert athugasemdir við útreikning á gengislánum. En útreikningur á gengislánunum er afskaplega sérkennilegur, það er ein ástæðan fyrir því að þessir dómar eru alltaf að falla.

Ég er þess vegna sannfærður um að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á því. Þá vísa ég til þess, og það er í sinni einföldustu mynd, að í endurútreikningunum eftir fyrsta gengislánadóminn er ekki tekið til greiðslu inn á höfuðstól. Það er hins vegar gert alla jafna í öllum viðskiptum manna á milli. Sá sem benti fyrstur á þetta er endurskoðandi norður í landi, Gunnlaugur Kristinsson, sem var, að mig minnir, búinn að eyða 40 klukkustundum í að skoða þessi mál þegar hann komst að þessari niðurstöðu. Það var ekki eftirlitsstofnun heldur endurskoðandi (Gripið fram í.) sem tók það upp hjá sjálfum sér að kanna það. Nú eru ýmis mál í tengslum við þá samninga sem eru fyrir dómstólum og við höfum verið að kalla eftir flýtimeðferð og öðru slíku vegna þess að við vitum ekki hvar neytendur standa í þessu efni. En það sem við vitum er að neytendavernd á fjármálamarkaði er ekki ásættanleg á Íslandi. Einn þáttur í því er að við höfum væntanlega ekki átt löggjöf sem er ásættanleg og við getum ekki sagt að hér vanti fjármuni, það vantar ekki fjármuni í Fjármálaeftirlitið, það er alveg útilokað að halda því fram, en það vantar eitthvað annað þar.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson minntist á það sem ég hélt að væri komin pólitísk samstaða um. Ég þykist nú muna að komið hafi yfirlýsingar frá núverandi hæstv. ráðherra um að mikilvægt og skynsamlegt væri að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Á miðvikudaginn ræðum við stjórnarráðsbreytingar sem eru ekki einu sinni umsagnir um. Málið var rifið út úr nefndinni með miklum látum og keyrð var í gegn einhver breyting á Stjórnarráðinu sem enginn hefur heyrt um og allt í einu eiga Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn að fara hvort í sitt ráðuneytið.

Virðulegi forseti. Maður þarf ekki að vera lengi hér við þessi störf til að sjá að það er ekki vænlegt til árangurs í samvinnu milli stofnana að hafa þau hvort undir sínu ráðuneyti, svo mikið er víst að það er ekki vænlegt til árangurs.

Við erum í þeirri stöðu að enginn veit nákvæmlega hvar þessi mál eiga heima þegar kemur að neytendamálum á fjármálamarkaði. Ég held að það séu í það minnsta þrír aðilar sem sinna þessu; Neytendastofa, Fjármálaeftirlitið og hugsanlega Samkeppniseftirlitið, en það … (TÞH: Umboðsmaður skuldara.) umboðsmaður skuldara, Neytendasamtökin og … Virðulegur forseti, ég biðst afsökunar, ég fór rangt með, þeir eru miklu fleiri en þrír, þeir eru fimm eins og ýmislegt annað, bara eins og ráðuneytin hjá hæstv. ráðherra, fimm ráðuneyti.

Hæstv. ráðherra sagði í andsvörum, sem mér fannst alveg rétt hjá honum að segja, að hann væri ekki búinn að kynna sér ákveðna þætti sem hv. þm. Eygló Harðardóttir spurði hann út í hörgul um, það var bara heiðarlegt og eðlilegt af hæstv. ráðherra að viðurkenna það. Það segir okkur hvað við þurfum að fara vel í þennan lagabálk. Það þýðir ekkert að kasta til höndunum. Við getum ekki annað en skoðað málið og þær breytingar sem við erum að fara í núna í tengslum við aðra þætti.

Ég veit ekki til þess að það hafi verið skoðað. Ég mundi ætla að með alla þessa ráðgjafa og stýrihópa sem nú starfa í Stjórnarráðinu hefði verið skynsamlegt að skoða þessar stofnanir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann, Samkeppnisstofnun og Neytendastofu, jafnvel einhverjar fleiri og athuga hvað væri skynsamlegt að sameina í því efni. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson spurði: Bíddu, á einn maður með 8 milljónir kr. á ári — það er væntanlega heildarkostnaður, þ.e. launatengdu gjöldin og allt annað — að bjarga neytendamálunum? Það er bara mjög eðlileg spurning. En stóra einstaka málið er þetta: Við hljótum að geta nýtt þá fjármuni sem eru til staðar betur og lagt meiri áherslu á að vernda neytendur á fjármálamarkaði.

Ég hef áhyggjur af því að þetta snúist um að menn ætli frekar að taka fyrir einhver mál sem eru ofarlega á baugi í umræðunni, til dæmis smálánin, sem er alveg sjálfsagt og mjög mikilvægt að setja skýran og góðan lagaramma um, ég dreg neitt úr því. En ef við ætlum að leggja fram frumvarp um neytendalán, sem ég fagna, skulum við gera það almennilega. Við skulum ekki endalaust vera í bútasaumi og vera á harðahlaupum og sitja svo uppi með einhverja stöðu eins og núna því að hún er fullkomlega óásættanleg.

Ég lít sérstaklega til fasteignalánanna. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við förum yfir þau af gildum ástæðum sem ég tel að þurfi ekki að ræða sérstaklega. Ég held að við þurfum ekki að ræða skuldavanda heimilanna, það var sérstök umræða um það rétt áðan. Ég held að það væri mjög mikilvægt að skoða alla hluti. Ég veit ekki hvort við eigum að skoða lyklafrumvarpið og þær hugmyndir í tengslum við þetta mál. Ég mundi ætla að eðlilegt væri að gera það þegar við förum yfir neytendalán og þá sérstaklega fasteignalán. Ég held að það væri óskynsamlegt og skrýtið ef við mundum ekki taka einn snúning á því, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég hef oft furðað mig á því þegar ég skoða þessi mál hvað það virðist vera auðvelt, sérstaklega fyrir ungt fólk, að koma sér í miklar skuldir. Það er eitthvað að í kerfinu. Ég er gamall eins og á grönum má sjá og man að þegar ég var að stíga mín fyrstu spor út í lífið og fá fjárhagslegt sjálfstæði að það var heljarinnar mikið mál að fá lán. Það var mikil stund ef einhver ætlaði að fá smáræðislán. Síðan þróaðist það á örskotstíma í að það gerðist bara sjálfkrafa. Ég man eftir einni manneskju sem var með afskaplega lágar tekjur, hún var au pair. Hún fór í bankann og stofnaði einhvern reikning og af því að það komu einhverjar krónur inn á reikninginn mánaðarlega fékk hún sjálfkrafa hálfa milljón í yfirdrátt. Það var ekki ódýrt. Ætli vextirnir þá hafi ekki verið kringum 15–20% af þeim yfirdrætti. Það er ekki eina dæmið. Við værum ekki með þessar miklu skuldir á einkamarkaðnum ef þetta væri ekki afskaplega auðvelt.

Ég því líka fyrir mér þegar ég renni í gegnum frumvarpið hvað það er sem er til bóta fyrir neytendur. Ég sé að menn hafa fjórtán almanaksdaga frest til þess að falla frá lánasamningi án þess að tilgreina ástæðu. Ég held að það sé afskaplega gott. Uppgreiðslugjaldið sem hér er nefnt er um 1% af fjárhæð má ekki vera hærra. Ef eitt ár eða minna er eftir er uppgreiðslugjaldið 0,5% af fjárhæðinni. Ég verð að viðurkenna að ég þarf aðeins að rifja þetta upp til þess að muna hvernig það er í samanburði við það sem verið hefur, mér sýnist það vera lægra.

Upplýsingar og upplýsingaskyldan sem aðeins var minnst á í andsvörum áðan er mikið mál. Við vitum að fjármálalæsi þjóðarinnar er ekki sem skyldi, sérstaklega þeirra sem yngri eru, en þó held ég að það nái eitthvað upp. Það er afskaplega mikilvægt að við göngum þannig frá málum að þegar viðkomandi einstaklingur tekur lán sé alveg skýrt að hann sé meðvitaður um hvaða áhættu hann tekur, hver kostnaðurinn er o.s.frv. og hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér.

Auðvitað getum við aldrei tekið ábyrgðina frá fólkinu. Fólk á að hafa frelsi en því fylgir ábyrgð. Það verður þá að vera sá heiðarleiki til staðar í þeirri umgjörð sem við erum með að það sé alveg skýrt að fólk, sérstaklega hugsa ég til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í slíkum viðskiptum, að þeir séu algjörlega meðvitaðir um það hvaða kostnað það hefur í för með sér að taka viðkomandi lán og hvaða áhætta er fólgin í láninu. Það eru margar freistingarnar í lífinu. Það er svo sannarlega allra handa markaðssetning sem snýr að ungu fólki, þá er ég ekkert að vísa bara í bíla eða slíkt, það er bara mjög margt sem gaman og miklu meira en var hér áður þegar við sem í þessum sal í það minnsta þrír af fjórum (TÞH: Hvað er hann aftur gamall?) í það innsta þrír af fjórum voru, þá var nú ekki haldið að okkur öllum þessum hlutum. Ég sé að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kannast ekkert við þetta, hann er að reyna að halda því hér fram að hann sé miklu yngri en sá sem hér stendur, en það er ekki alveg nákvæmt. Ég hvet hv. þingmenn til þess að aðeins að hugsa til baka og sjá í hvaða stöðu við vorum á sínum tíma, það var ekki þetta endalausa áreiti með allt milli himins og jarðar sem er auðvitað að mörgu leyti frábært en það sem ég er bara að segja, virðulegi forseti, er þetta: Við megum ekki ganga frá þessu máli öðruvísi en svo að við höfum stigið hér alvöruskref í átt til neytendaverndar. Upplýsingaskyldan — við verðum að ganga þannig fram að við séum með samninga og þær upplýsingar sem verður að veita sem eru þess eðlis að fólk sé meðvitað um það hvaða áhættu það er að taka og hvaða kostnað það þarf að greiða. Ég held að það sé algjört lykilatriði.

Ég er alveg tilbúinn þess að leggja mig allan fram og vinna langt fram á nótt til þess að skoða þetta og fara vel yfir þetta, en ég hvet nú hv. þingmenn til þess að átta sig á því að hér um alvöru mál á ferðinni. (Forseti hringir.) Þetta er stórt mál og við verðum að vanda okkur. Nógu mörg mistök hafa verið gerð á þessu sviði fram til þessa.