Neytendalán

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 20:01:43 (8773)


140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er af nógu að taka þegar verið er að ræða jafnstórt mál og hér er um að ræða og er miður að við séum að ræða það við þessar aðstæður núna. Ég held að þeir sem hafa fylgst með umræðunni hafi áttað sig á því að hér er um gríðarstórt mál að ræða, mál sem við erum búin að bíða lengi eftir, og það snýr að neytendavernd. Ég lít alla vega þannig á að ef við nýtum þetta tækifæri ekki til að styrkja neytendavernd þá sé það mjög miður. Ég ætla ekki að trúa því fyrr en ég tek á því að þannig verði gengið frá þessu máli.

Það er ýmislegt sem er hægt að ræða. Hér kemur það meðal annars fram að það á að þrengja, eins og ég skil frumvarpið, skilyrði fyrir því að taka lán — það er kannski ekki þrenging en það á að skýra atriði sem varða upplýsingar fyrir lántakendur. Mér sýnist sem svo að við þurfum að fara vel yfir þann þáttinn og sjá til þess að við séum að ganga frá þessu eins og hægt er, þ.e. að upplýsa um kostnaðinn og áhættuna fyrir þá sem taka lán.

Hér er um tvenns konar mat að ræða. Ef ég skil málið rétt þá á að vera greiðslumat ef um stærri lán er að ræða en lánshæfismat ef um smærri lán er að ræða. Greiðslumat er skilgreint þannig að það sé útreikningur á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur sem meðal annars byggjast á viðurkenndum neysluviðmiðum. En lánshæfismat er mat lánveitenda á lánshæfi lántaka byggt á viðskiptasögu aðila á milli upplýsinga um eignir, skuldir, gjöld, tekjur og upplýsingar úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega. Hugmyndin er væntanlega sú að varðandi lánshæfismat sé fyrst og fremst um það að ræða að viðkomandi lánafyrirtæki afli sér upplýsinga um viðkomandi viðskiptavini og meti þá hvort hann sé hæfur til að taka lán en greiðslumat er mun flóknara að því leyti til að þá er verið að taka til stöðu viðskiptavinar og það er þá væntanlega reiknað út. Hæstv. ráðherra getur kannski farið yfir það á eftir hvort ekki sé rétt skilið að það sé einhvers konar útreikningur á því og mat á því miðað við fjárhagslega stöðu lántakans hvort hann geti tekið viðkomandi lán. Hér er talað um að byggja eigi á viðurkenndum neysluviðmiðum og það þýðir væntanlega að það sé reiknað út jafnnákvæmlega og hægt er og metið hvort viðkomandi sé hæfur til að taka viðkomandi lán.

Ég verð að viðurkenna að það er orðið dálítið síðan, virðulegi forseti, að ég tók lán og væri fróðlegt að þekkja samanburðinn við það sem viðgengst í dag. Það væri fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort hér er um mikla breytingu að ræða. Ég trúi ekki öðru en ef einstaklingar ætla að taka stór lán, til dæmis fasteignalán, þurfi þeir að uppfylla ákveðna kríteríu áður en þeir taka lán. Það er kannski ágætt að fá að vita það, af því að það er mikið lagt upp úr því í þessu frumvarpi, þ.e. greiðslumati og lánshæfismati, hver sé raunverulegur munur á þessu og því fyrirkomulagi sem er í dag því að lánshæfismat virðist fyrst og fremst ganga út á það að verið sé að kalla eftir upplýsingum úr þeim gagnagrunni sem er til staðar núna. Ég býst við því að það sé gert þannig með lán, sérstaklega smáu lánin, því að varla fær fólk lánafyrirgreiðslu bara út á útlitið á sér. Ef svo er væri hins vegar fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra og ég vildi gjarnan að hann færi yfir það að hvaða leyti þessi tvö möt eru frábrugðin því fyrirkomulagi sem er í dag.