Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 21:14:25 (8794)


140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við báðir vitum, við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, er atvinnuveganefnd svo vel skipuð að þar er margt fólk sem hefur mikinn áhuga á málefnum landsbyggðarinnar og ekki síst því brennandi máli sem húshitunarkostnaðurinn er. Við höfum, held ég, mörg hver flutt nokkrar ræður um það hér bæði fyrr og síðar. Eins og ég hef margoft sagt hefur okkur stundum vegnað vel og stundum miður. Því miður hefur okkur vegnað mjög illa síðustu árin.

Atvinnuveganefnd skoðaði þetta mál alveg sérstaklega og þegar upplýst var að sú nefnd sem ég hef tíðum vitnað til í ræðu minni væri um það bil að ljúka vinnu sinni var ákveðið að doka aðeins við. Við ákváðum að kynna okkur afrakstur þessarar nefndar sem við og gerðum eftir áramótin og ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra beitti sér fyrir því að það væri sömuleiðis gert í fleiri fagnefndum. Fagnefndirnar eru alveg tilbúnar til þess að mínu mati, og það á auðvitað sérstaklega við um atvinnuveganefnd, að takast á við þetta mál og gera þær breytingar sem þarf að gera. Við treystum því hins vegar, held ég, velflest að þetta yrði eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar en eitthvað annað virðist ríkisstjórnin hafa haft að sýsla en að hyggja að þessu stóra máli. Við sjáum að eini afraksturinn af nefndarvinnunni er þetta litla frumvarp hérna sem hefur mikla þýðingu á afmörkuðum stöðum, og ég ætla ekki að gera lítið úr því, en er hins vegar ekki mjög stórt í hinu stóra samhengi.

Það sem mér finnst hins vegar alveg blasa við að atvinnuveganefnd hljóti að gera er að taka sérstaklega fyrir það sem snýr að hitaveitunum sjálfum. Þar er kallað eftir því og gerð tillaga um það af nefndinni sem vísað er til að þetta stofnstyrkjaframlag megi teygja upp í allt að 12 ár. Ég tel að það sé algjörlega einboðið að nefndin leggi slíka breytingartillögu fram í tengslum við þetta og afgreiða málið þannig. Það er ekki samboðið Alþingi, (Forseti hringir.) eftir allt sem á undan er gengið, að þetta sé (Forseti hringir.) það eina sem komi frá þinginu um húshitunarmálin eftir allt þetta japl, jaml og fuður.