Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 21:16:45 (8795)


140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að atvinnuveganefnd ætti ekkert að vera vanbúin að fara ofan í einmitt þennan þátt. Það væri gaman ef hæstv. iðnaðarráðherra mundi bregðast við því í lokaræðu sinni á eftir hvort til greina kæmi að skoða það með atvinnuveganefnd og ráðuneytinu að bæta þessum lið inn. Ég held að það mundi hjálpa til við þá hitaveituvæðingu sem er svo nauðsynleg.

Hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni varð tíðrætt um skýrslu þessa starfshóps. Mig langar í seinna andsvari mínu til að spyrja hv. þingmann hvort hann muni — kannski fór það fram hjá mér í ræðu hans, ef svo er bið ég forláts — eftir þessari heildarjöfnun á húshitunarkostnaði, tillögu sem helst var uppi í umræðu okkar í atvinnuveganefnd. Er það sé rétt munað hjá mér, ég var ekki með pappírana hjá mér, að við séum að tala um að leggja 17 aura á kílóvattstundina á heildsölustigi til að standa undir heildarjöfnun á húshitun? Getur þingmaðurinn aðeins farið yfir það? Ég veit að hann er vel að sér bæði í skýrslunni og húshitunarjöfnun á köldum svæðum. Það er eiginlega merkilegt að við skulum vera að fjalla um þetta enn þann dag í dag þó að, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, á einhverjum tímapunkti hafi jöfnunin verið nokkuð algild. Í meðförum þingsins, þar sem við tökum ákvörðun árlega um það hvaða fjármunir fari í þetta, varð skekkjan sú að jöfnunin nái aðeins 67% í dag (Forseti hringir.) ef ég heyrði rétt hjá hæstv. ráðherra.