Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 21:44:07 (8801)


140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í raun og veru er svolítið áhugavert að velta því fyrir sér hvort þéttbýlið sé að greiða niður dreifbýlið og að menn hafi ekki viljað gera það með skattfé. Ég skil rökin sem sett voru af stað þegar menn voru bara að horfa á Rarik eitt og sér, og að innan þess neytendahóps sem Rarik þjónaði mundi það leggjast með óeðlilega miklum þunga á þéttbýlisstaði sem voru hjá Rarik ef þeir einir ættu að greiða niður dreifbýliskostnaðinn hjá sama fyrirtæki. Þess vegna fannst mér hugmyndin í starfshópi sem hér hefur margoft verið nefndur vera svo góð, að leggja á 10 aura eða hugsanlega 20, ef við tækjum alla jöfnunina ef ég man tölurnar rétt, á heildsölustigið. Og skiptir þá gríðarlegu máli að stóriðjan komi þar með í þann pakka því að þá er ekki í raun verið að tala um neina niðurgreiðslu frá einum eða neinum heldur hina pólitísku stefnumótun um að við ætlum að hafa eitt raforkuverð í landinu.

Nú verður raforkan til í mjög miklu magni á Suðurlandi, í Þjórsá og á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Það er svolítið sérstakt að verðlagningin fari fram í Reykjavík og raforkan seld við hliðina á Þjórsá, þar er dreifbýlið á hæsta verði þegar orkan rennur þar fram hjá, það er mjög sérkennilegt.

En það sem mér finnst mjög áhugavert að skoða er að við hættum þessu niðurgreiðslutali og förum heldur að búa til pólitískan grunn fyrir að hafa eitt raforkuverð í landinu. Og ef það er þannig að Rarik getur ekki gert þetta við núverandi aðstæður, með núverandi gjaldskrá þá finnst mér mjög áhugavert að setja á laggirnar samvinnudreifikerfi, „nonprofit“, með leyfi forseta, ekki-hagnaðarfyrirtæki, og biðst forláts að hafa gleymt að þýða það hugtak áðan. (Forseti hringir.) Það væri áhugaverð leið.