Umræður um störf þingsins 2. maí

Miðvikudaginn 02. maí 2012, kl. 15:03:18 (8809)


140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég hef út af fyrir sig ekki kynnt mér sérstaklega þetta tiltekna mál en tek undir með hv. þingmanni, auðvitað varðar þetta krosseignarhald og kannski ekki síst sú staðreynd að inni í þeim krossum var umfangsmikið eignarhald í fjármálageiranum, í bankastofnununum sjálfum, sem olli bólunum og því gríðarlega tjóni fyrst og fremst sem hér varð við efnahagshrunið. Þetta eru nokkur af stærstu gjaldþrotum í sögu veraldarinnar þannig að engum þarf að koma á óvart þó að í eftirleiknum heyrist háar tölur.

Hvað hefur verið gert til að varna því að þetta gerist aftur? Í fyrsta lagi er sú staðreynd að engar slíkar grúppur eru með neitt tangarhald á íslenskum fjármálastofnunum eins og þær eru reknar í dag. Forræði á bönkunum er með allt öðrum hætti og engin leið við núverandi aðstæður að misnota þá og þeirra mikla útlánaafl í tilgangi eins og þeim að setja upp bólur og krosseignarhald og búa til eigið fé úr lofti, svo að segja, eins og eru þær venjur sem hv. þingmaður vísar til.

Hvað annað er hægt að gera til að draga úr því? Við erum með í þinginu frumvarp til laga um ársreikninga og bókhald þar sem gefast býsna góð tækifæri til að skerpa á upplýsingaskyldunni um eignarhald í fyrirtækjum og auka með því gagnsæið. Ég held að það sé fyrst og fremst lærdómurinn sem við öll hljótum að draga af hruninu. Það er nauðsyn gagnsæis, bæði um þessar afskriftir sem þingmaðurinn nefnir, að upplýsa einfaldlega um þær, um að hafa opnar og gagnsæjar reglur (Forseti hringir.) um eignarhald. Við Íslendingar þurfum sérstaklega á því að halda því að við erum svo pínulítið samfélag að við þurfum enn (Forseti hringir.) meira á því að halda en hin stærri að hafa hlutina opna og gagnsæja.