Umræður um störf þingsins 2. maí

Miðvikudaginn 02. maí 2012, kl. 15:27:09 (8820)


140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef þá sannfæringu að samfélagi þar sem einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi er í hávegum haft vegni betur en samfélagi hafta og eftirlits. Það er mikilvægt að atvinnulífið hér rétti úr kútnum. Margir hafa talað um það, m.a. hér í þessari pontu, hversu mikilvægt það sé að fjölga eggjunum í körfunni og styðja nýjar atvinnugreinar og atvinnutækifæri.

Ein atvinnugreinin er kræklingarækt. Ég rakst á viðtal við formann Skelræktar, hagsmunasamtaka kræklingaræktenda, á Stöð 2 þar sem hann heldur því fram að það eftirlits- og leyfisveitingakerfi sem stjórnvöld eru að setja upp í kringum þessa grein stefni í að kæfa hana í fæðingu. Mig langar að spyrja hv. þm. Kristján L. Möller sem er formaður atvinnuveganefndar hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari stöðu. Alþingi setti fyrir um ári lög um skeldýrarækt þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins varaði við því flækjustigi sem lögin fela í sér fyrir þá sem vilja fara út í þessa atvinnugrein.

Miðað við þetta viðtal þarf viðkomandi að sækja fyrst um starfsleyfi, síðan tilraunaleyfi, fá umsagnir hjá fjölmörgum aðilum, fara svo í heilnæmiskönnun, fá ræktunarleyfi, fá umsagnir frá fjölmörgum aðilum, fá síðan uppskeruheimild sem borga þarf fyrir fyrst 280 þúsund á viku og síðan 140 þúsund á tveggja vikna fresti og þá fá vinnsluleyfi en það ferli er svo flókið að Matvælastofnun býður upp á sérstakan leiðbeiningabækling fyrir umsóknarferlið.

Ég tel að við þurfum að taka þetta mál upp í þinginu. Það er ár síðan lögin voru samþykkt. Miðað við nefndarálit með því máli var ætlunin að endurskoða lögin eftir þrjú ár, en er ekki hv. þingmaður sammála mér um að við getum ekki beðið og þurfum að skoða málið hið snarasta?