Heilbrigðisstarfsmenn

Miðvikudaginn 02. maí 2012, kl. 16:01:14 (8843)


140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ólíku saman að jafna, þeirri málsmeðferð sem þetta mál hefur fengið og því máli sem stendur til að ræða á eftir. Þetta er mál sem er búið að koma ítrekað fyrir á þingi, búið að kalla eftir umsögnum frá öllum hagsmunaaðilum og þingnefndin er búin að fara mjög vel yfir. Það sem líka mælir með málinu er að ráðherrar úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum hafa komið nálægt vinnslu þessa máls þannig að ég held að ég geti sagt að heilmikil samstaða hafi skapast um málið í velferðarnefnd á þeim góða grunni.

Ég legg hins vegar fram fjórar breytingartillögur. Ég geri mér vel grein fyrir því að í nefndaráliti meiri hlutans hefur komið fram að þetta sé eitthvað sem hann vildi gjarnan skoða við endurskoðun á öðrum lögum, en ég taldi samt sem áður brýnt að leggja þær hérna fram og mun síðan gera nánari grein fyrir þeim þegar þær verða bornar upp til atkvæðagreiðslu.