Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands

Miðvikudaginn 02. maí 2012, kl. 22:47:38 (8933)


140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé alveg á hreinu hætti ég í sveitarstjórnarmálum um leið og ég settist á þing, bara sama daginn. Hv. þingmaður rifjaði upp það sem margir sveitarstjórnarmenn hafa staðið fyrir. Eftir fyrsta kjörtímabilið — við vorum fyrsta og eina sveitarfélagið sem sameinaðist Snæfellsbæ eftir fyrri umferðina 1993, þá vorum við með níu manna bæjarstjórn, miklu fleiri nefndir og miklu fleiri í nefndunum — var það fyrsta verkið að fækka sveitarstjórnarmönnum niður í sjö, fækka nefndum og fækka í nefndunum en það var unnið í algerri sátt milli meiri hluta og minni hluta, enginn ágreiningur um það. Allir komu að því og allir höfðu sama markmið, þetta var reynslan hvað væri skynsamlegast og best fyrir stjórnsýsluna í sveitarfélaginu og það var gert með þessum hætti, unnið algerlega í sátt og engar athugasemdir. Þannig á auðvitað að vinna málin.