Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands

Miðvikudaginn 02. maí 2012, kl. 23:55:40 (8957)


140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:55]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í grunninn finnst mér það ákaflega sérstakt að ætla sér að sameina ráðuneyti og fækka ráðuneytum með því svo að setja á aðstoðarráðherra. Mér finnst það sérstök skipan á málum og það kom mér á óvart. Maður á hins vegar alltaf að vera tilbúinn til að rökræða málin og skoða alla möguleika.

Ef sú verður raunin að ráðuneytin verði sameinuð í þær einingar sem rætt er um í þessari þingsályktunartillögu tel ég skynsamlegt að skoða þetta. Ég er sammála hv. þingmanni í því að fram þarf að fara rökræða um það hvert verksvið þeirra á að vera, hver á að ráða í ráðuneytunum, hverjir eru málsvarar ákveðinna málaflokka og annað slíkt. Ég tel mjög nauðsynlegt að ræða þetta ef af þessu verður.