140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:41]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu bæta því við þessa umræðu að ég held, svona hugsað til baka, hv. þm. Pétur Blöndal, að breytingarnar árið 2007 sem við höfum gert að umtalsefni hér hafi í raun og veru farið allt of seint fram. Það hefði þurft að vera búið að gera þessa uppstokkun og breytingar á stjórnkerfinu í þá átt að styrkja það og efla í staðinn fyrir — hvað? Það var búið að tæta ráðuneytaskipan landsins niður í smáeiningar, stofna hvert smáráðuneytið á fætur öðru. Mönnum þótti það kannski heppilegt og passlegt til að geta komið sem flestum fyrir í ráðherrastól vegna þess að ríkisstjórnarmyndun gengur stundum, og því miður allt of oft, út á það að koma sem flestum fyrir í ráðherrastól í staðinn fyrir að hugsa um það hvernig við ætlum að hafa virkt, öflugt og sterkt stjórnkerfi í landinu.