Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2012, kl. 14:56:36 (9570)


140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægður með að sjá að hæstv. utanríkisráðherra situr hér í salnum og ætlar að hlusta á ræðu mína. Ég vænti þess að hann komi í andsvör um þessar bollaleggingar mínar.

Það er dálítið athyglisvert að ræða þetta í ljósi þess að við vorum að ræða það fyrir örfáum mínútum hvernig standa eigi að því að vera með forgangsröðun og ábyrg ríkisfjármál. Mig langar að setja það í þetta samhengi þegar verið er að fara í breytingar á Stjórnarráðinu sem sumum hverjum finnst að verið sé að gera of mikið úr og ekki sé ástæða til. Ég vil setja þetta í þetta samhengi til að reyna að opna augu hv. stjórnarliða.

Við afgreiðslu fjárlaga 2012 lá ekki fyrir nein beiðni og umfjöllun um það í þinginu hvort fara skyldi í þessa vegferð, þ.e. að setja 250 milljónir í kostnað vegna húsnæðis. Hins vegar var tekin ákvörðun um það í desember að skera mjög niður í heilbrigðismálum, eða töluvert ofan á fyrri niðurskurð. Það er rannsóknarefni hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur komið fram gagnvart heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið. Nú er staðan þannig að einungis einn af hverjum tíu forstöðumönnum heilbrigðisstofnana telur sig geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Einn af hverjum tíu telur sig geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum samkvæmt könnun sem gerð var á vegum ráðuneytisins. Kveikir þetta hugsanlega á einhverjum perum eða opnar augu einhverra hv. stjórnarþingmanna? Það ætti auðvitað að gera það, en mér finnst eins og það geri það ekki.

Við skulum bara ræða hlutina eins og þeir eru og ég vil líka setja þetta í það samhengi að þetta snýst um að menn forgangsraði í ríkisfjármálum. Nú höfða ég til hæstv. utanríkisráðherra: Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni hjá hv. stjórnarþingmönnum og hæstv. ráðherrum sem vilja styðja þetta mál að á sama tíma og verið er að gera það telur einn af hverjum tíu sig geta uppfyllt lögin hvað varðar þá þjónustu sem heilbrigðisstofnunum er skylt að veita.

Ég vil líka nefna að tekin var mjög erfið og afdrifarík ákvörðun hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, það var að loka svokallaðri E-deild. Það þýddi að 28 konum var sagt upp störfum — 28 konur reknar út. Sumar þeirra höfðu starfað í áratugi við þessa sömu stofnun, margar þeirra, og sumar meira að segja alið allan sinn starfsaldur og tileinkað starf sitt uppbyggingu þessarar stofnunar.

Þetta segi ég í þessu samhengi vegna þess að fyrir þá peninga sem verið er að eyða í þessar húsnæðisbreytingar væri sennilega hægt að reka umrædda deild í um tvö ár. Þetta fjallar um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Síðan tala hv. stjórnarliðar og hæstv. ráðherrar um kynjaða fjárlagagerð, kynjaða hagstjórn og bullfrasa af því tagi daginn út og daginn inn. En þetta eru verkin. Auðvitað munu hv. stjórnarþingmenn verða dæmdir af verkunum en ekki því sem þeir segja, því að oft og tíðum er ekki mikil innstæða fyrir því hjá hv. stjórnarþingmönnum, mörgum hverjum.

Til hvers er ég að draga þetta fram? Hv. þingmönnum ber að taka ákvörðun um forgangsröðun í ríkisfjármálum og að setja 250 milljónir í gæluverkefni af þessu tagi, sem ekki lá fyrir að yrði gert við afgreiðslu fjárlaga 2012, og reka á sama tíma konur út af heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið — ég tek þetta dæmi sérstaklega sem er náttúrlega mjög alvarlegt, líka gagnvart því ágæta fólki sem er vistað þarna og aðstandendum þess. Það fólk sem er vistað á þessari deild, vistmenn, á þetta ekki skilið. Þetta er ekki hávær kröfuhópur og þannig er framkoman. En frasaumræðan hljómar á þann veg að stefnt sé að því að gera eitthvað allt annað. Verkin munu auðvitað tala sínu máli.

Það er hreint með ólíkindum að 250 millj. kr. skuli hent í vitleysisframkvæmd af þessu tagi, sem engin samstaða er um, í lok kjörtímabils. Það eru meiri líkur en minni, leyfi ég mér að fullyrða, á því að þessu verði breytt. Það er þetta sem hv. þingmenn verða að horfast í augu við þegar þeir greiða atkvæði um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Það kemur þá skýrt fram að þeir vilja frekar eyða peningunum í þetta og reka á sama tíma konurnar út af heilbrigðisstofnunum, þvert á það sem þeir segja á (Forseti hringir.) góðviðrisdögum.