Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2012, kl. 19:09:06 (9652)


140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég held að það muni ekki styrkja sjávarútveg, landbúnað eða iðnað í landinu að fjármálastofnanir og Fjármálaeftirlitið fari undir sama ráðuneyti. Ég tel að einingarnar séu svo ólíkar og nálgunin varðandi fjármálafyrirtæki og síðan fjármálaeftirlitið sé af allt öðrum toga en það sem þarf til þegar við horfum til undirstöðuatvinnugreina samfélagsins, sjávarútvegs og landbúnaðar og svo iðnaðarins. Ég get ekki séð með hvaða hætti það felst einhver hagræðing í að setja fjármálafyrirtækin og Fjármálaeftirlitið undir atvinnuvegaráðuneyti vegna þeirra ólíku eiginleika sem felast í þessum ólíku atvinnugreinum.

Vissulega má horfa til þess að fjármálafyrirtækin og þjónusta fjárfestinga og viðskiptabanka sé atvinnugrein í sjálfu sér en í mínum huga tengist hún meira fjármálum og fjármálaráðuneyti og þá frekar efnahagsráðuneyti en nokkurn tíma atvinnuvegaráðuneyti. Hin faglega nálgun er meðal annars sú að meiri fagleg yfirsýn verði hjá þeim ráðherra sem sér um þessa málaflokka. Ég tel að fagleg yfirsýn verði ekki meiri og betri í atvinnuvegaráðuneyti með því að taka inn svo gjörólíkar einingar eins og hér er verið að gera og geld varhuga við þessari breytingu.