Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 17:46:47 (9831)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Var þetta yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra um að kreppunni væri lokið, að ríkisstjórnin hefði náð böndum yfir ástandið í þjóðfélaginu og það væru engin vandamál eftir að leysa? Mig þætti gaman að heyra svar hæstv. ráðherra við þessu. Eins og ég minntist á áðan er verðbólgan í 6,4%, hvorki meira né minna. Það fjölgaði á vanskilaskrá Creditinfo um 1.500 einstaklinga. Þar eru hátt á 30 þúsund manns á vanskilaskrá.

Hæstv. utanríkisráðherra spurði mig hvernig ég vildi sjá heimildum beitt og notaði svo orðin „til að refsa“. Ég notaði ekki orðið „refsa“ í minni ræðu. (Gripið fram í.) Mér hefur þá misheyrst og þér líka. Það eru heimildir til staðar og ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju er þeim heimildum ekki beitt? Ég spyr sömu spurningar og ritstjóri Fréttablaðsins spurði í leiðara: Af hverju er þeim heimildum ekki beitt eða því áminningarkerfi sem er til staðar í stjórnsýslulögum þegar forsvarsmenn stofnana fara ítrekað fram úr fjárheimildum?

Ég lít ekki á þetta sem léttvægt atriði. Ég lít á þetta sem stórt vandamál vegna þess að agi í ríkisfjármálum endurspeglast þarna. Hann er lítill sem enginn og ítrekað koma fram skýrslur frá ríkisendurskoðanda sem segja að þar sé víða pottur brotinn. Ég veit vel að Alþingi ræður, ég átta mig alveg á því, en ég vil líka minna hæstv. ráðherra á það að þegar kreppan skall á stigu fram tvær þingkonur, sem voru í meiri hluta með hæstv. utanríkisráðherra, og sögðu að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa, þær væru hér (Forseti hringir.) einfaldlega til þess að stimpla gjörðir ríkisstjórnarinnar.