Stytting námstíma til stúdentsprófs

Þriðjudaginn 15. maí 2012, kl. 13:52:34 (9850)


140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stytting námstíma til stúdentsprófs.

[13:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Á síðustu missirum hafa reglubundið komið fram hugmyndir um að stytta námstíma til stúdentsprófs þar sem uppleggið hefur verið að stytta námstímann og lækka útskriftaraldur án þess að skerða inntak námsins þannig að auka megi samfellu á milli skólastiga. Markmiðið með þessu er margvíslegt, meðal annars að unga fólkið okkar komist fyrr inn í háskólana og út á vinnumarkaðinn en sérstaklega þó að minnka brottfall úr framhaldsskólum sem verið hefur með meira móti á Íslandi, samhliða því að stórefla verknámið, eins og hæstv. ráðherra hefur margoft lýst yfir að mikilvægt sé að gera.

Sjálfur tel ég mjög mikilvægt að við förum í það af fullum krafti að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskólum með því að stytta námstíma til stúdentsprófs með því að efla flæði og samfellu á milli skólastiga. Útskriftaraldur framhaldsskólanema til stúdentsprófs er einn sá hæsti í Evrópu allri á Íslandi eða hátt í 21 ár og hefur ekki tekist að lækka útskriftaraldurinn verulega. Ég held að mikilsvert væri að við næðum þeim árangri að lækka þennan meðalaldur um eitt ár með því að stytta námstímann og samhliða því að stuðla að því að fleiri sæki starfsnám og að þeir geti síðar sótt í bóknám ef þeir hafa það í hyggju.

Því vildi ég spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort ráðherrann hafi það í bígerð á þessu kjörtímabili að leggja fram tillögur, frumvarp eða þingsályktunartillögu um að stytta námstíma til stúdentsprófs. Það kom út ágæt skýrsla um þetta mál á vegum hæstv. menntamálaráðherra þess tíma, Tómasar Inga Olrichs. Mikið hefur verið rætt um þetta mál en það hefur legið í láginni síðustu ár. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stytta nám til stúdentsprófs til að stórefla framhaldsskólann og taka hann til nokkurrar endurskoðunar þótt hann sé að mörgu leyti mjög vel heppnaður á Íslandi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi slík plön í hyggju.