Nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál

Þriðjudaginn 15. maí 2012, kl. 14:30:58 (9864)


140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka upp samgöngumál í Reykjavík og höfuðborgarsvæðisins alls og vekja athygli á þeim. Það er rétt hjá honum að höfuðborgarsvæðið hefur lengi farið halloka í framlögum til samgöngumála. Það hefur ekki farið eftir ríkisstjórnum eða flokkum þeim sem samgönguráðherrar hafa tilheyrt og er miður.

Ég fagna hins vegar þeim samningi sem sveitarfélögin öll á höfuðborgarsvæðinu hafa gert við ríkið og Vegagerðin hefur komið að. Baksvið þeirra samninga er að almannasamgöngur hafa verið vanþróaðar á öllu svæðinu í áratugi. Það er sama hvert litið er. Strætisvagnasamgöngur eru slælegar, hjólreiðar hafa varla verið stundanlegar fyrr en á síðasta áratug, liggur mér við að segja, og úr þessu þarf að bæta. Það hefur dregið úr bílaumferð síðustu ár og það er mikilvægt fyrir íbúa að sú þróun haldi áfram, a.m.k. hlutfallslega, vegna kostnaðar og mengunar, vegna stöðu í loftslagsmálum og vegna lífsgæða á borgarsvæðinu. Nú eru peningar til einstakra stórframkvæmda af skornum skammti þannig að ég tel mjög hyggilegt að menn hafi ákveðið að ráðast í þá stórframkvæmd, eins og hæstv. innanríkisráðherra kallar það, að bæta almannasamgöngur á svæðinu.

Ég fagna því að menn hafa gengið í þetta verk í sveitarstjórnunum. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, skrifaði undir viljayfirlýsinguna og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, lauk málinu í samningum við ríkið. Það er auðvitað athyglisvert að sjá að sjálfstæðismenn í sveitarfélögunum í Kraganum hafa greinilega aðra afstöðu til málsins en sjálfstæðismenn á þinginu og sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eitt það mikilvægasta er að samninginn á að endurskoða á tveggja ára fresti. Þá er um leið hægt að meta (Forseti hringir.) stöðu einstakra stórframkvæmda þannig að ekkert er útilokað í þessum efnum. Ég fagna þessu samkomulagi.