140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:30]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn. Hún kom inn á atriði sem ég nefndi í ræðu minni, þ.e. hvort markmið þessara IPA-styrkja sé ekki einmitt að tryggja aðlögun á Íslandi. Það kemur reyndar fram í sjálfu frumvarpinu að ekki sé ætlunin að nota styrkina til að byggja upp stofnanir heldur þá fyrst og fremst að styrkja samstarfið við ESB og að styrkja það sem er kallað efnahagsleg og félagsleg þróun ásamt byggðaþróun.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ekki þurfi að fá styrki frá ESB til að efla efnahagslega, félagslega og byggðalega þróun hér á landi heldur sé það bara spurning um pólitíska ákvörðun um að setja fjármagn í verkefni sem ná þessu markmiði, sem er miklu betra en að við þiggjum aðstoð við það.

Fjármagn er alltaf af skornum skammti og velja þarf á milli verkefna. Ástæðan fyrir því að ekki er búið að fara í sum þeirra verkefna sem nota á IPA-styrkina í er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun um að ríkið styrki ekki byggðir úti um allt land með fjárframlögum heldur frekar til dæmis með lágum sköttum. Það er bara pólitísk ákvörðun. Taka á pólitíska ákvörðun af lýðræðislega kjörnu þingi og þingmönnum frekar en af einhverjum embættismönnum úti í Brussel.