140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:25]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég deili þeirri skoðun með honum að það liggur í eðli þessa stjórnarsamstarfs að því má ekki hagga og þá leita menn eðlilega þeirra leiða sem færar eru hverju sinni. Varðandi hæstv. fyrrverandi ráðherra held ég að þetta skýrist að stærstum hluta með því að hann er ráðherra í ríkisstjórn og verður að bera uppi fjárlögin, maður hefur í sjálfu sér alveg fullan skilning á því.

Ég vil nálgast þetta líka út frá því sem komið hefur fram í áliti frá Félagi löggiltra endurskoðenda, að verið sé að mismuna innlendum aðilum gagnvart verkefnum sem hér um ræðir og eru í landsáætlun IPA fyrir 2011, en einnig liggja fyrir nokkur verkefni fyrir árið 2012 upp á 596 millj. kr. Við höfum fengið ábendingar héðan og þaðan af landinu um þessi verkefni, m.a. frá landshlutasamtökum sveitarfélaga sem eru komin með annan fótinn inn í einhver slík verkefni. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður hafi orðið var við slíka vinnu innan vébanda síns kjördæmis. Eru þar á ferðinni einhver verkefni sem hann veit til að kunni að koma til framkvæmda og verða fjármögnuð með IPA-styrkjum? Óneitanlega vekur þetta nokkrar spurningar því að ég man eftir því þegar spurt var um verkefni sem heyra undir þetta innan fjárlaganefndar við fjárlagagerð fyrir 2011 og einnig 2012 reyndist afar erfitt að draga saman upplýsingar um þau.

Meginatriðið lýtur að því hvort hv. þingmaður hafi, innan kjördæmis síns, orðið var við áhuga á verkum sem ætlunin er að fara til á grunni þeirra styrkja sem hér liggja undir.