140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem ég er að velta fyrir mér eru þessi verkefni og hlutir þeim tengdum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á í ræðu sinni og kom fram fyrr í dag að þau verkefni sem sótt er um IPA-styrki til eru mörg hver mjög góð og ósköp eðlilegt að þeir sem að baki þeim standa reyni að afla sér fjármuna til þeirra. Verkefnin hverfa ekki þó svo við hættum þessari vitleysisferð til Evrópusambandsins, verkefnin fara ekki neitt.

Ég held að mikilvægt sé að taka allan vafa af um það að ef þetta fer allt í vitleysu, þessir IPA-styrkir, þá bera stjórnvöld vitanlega ábyrgð á því að hafa farið af stað með ferlið. Stjórnvöld hljóta að ljúka þeim verkefnum sem farið var af stað með, ég get ekki litið öðruvísi á það. Það eru stjórnvöld sem koma fram með þessi mál og leggja áherslu á að þau nái fram að ganga. Þar af leiðandi hljóta þau að bera endanlega ábyrgð fari allt á þann veg að þessu verði hafnað.

Ég held að það sé nokkur misskilningur á ferðinni þessu tengt. IPA-styrkirnir og það IPA-prógramm sem um er að ræða — mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður líti á þetta prógramm sömu augum og önnur verkefni, önnur prógrömm eða áætlanir sem Íslendingar eru þátttakendur að. Íslendingar eru þátttakendur í ýmsum samstarfsverkefnum við Evrópusambandið og við lönd innan Evrópusambandsins og svo sem víðar. Mig langar að spyrja hvort þetta IPA-prógramm lúti sömu lögmálum og hin verkefnin.