140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hugsa að mér hafi misheyrst þegar ég heyrði það á hv. þingmanni að hún teldi að ég mundi samþykkja þetta frumvarp. (Gripið fram í.) Hafi mér misheyrst skal ég ekki erfa það við hv. þingmann.

Ég vildi um þessa tilteknu spurningu segja að það er ekki hægt að beita ákvæðum Vínarsamningsins beint eða þeim lögum sem á honum eru byggðir vegna þess að ekki er um að ræða sendimenn í skilningi þeirra samninga. Það er alveg á hreinu. Því þarf að setja þessi lög til að undanþiggja þá skattskyldu einstaklinga og lögaðila sem þarna er vísað til. Í ræðu minni kom ég inn á og ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé mér sammála að þarna sé gengið töluvert lengra í skilgreiningum en á við um sendimenn. Það snertir fyrst og fremst það að vísað er til verktaka. Það þýðir að gengið er lengra en gildir um sendimenn almennt, en það er líka verið að búa til mjög óljóst grátt svæði eins og nefnt hefur verið hér í umræðum og í athugasemdum við frumvarpið. Töluvert grátt svæði skapast því að skattfrelsið er ekki látið ná aðeins til tilgreindra starfsmanna sem hafa opinbert embætti og opinbera viðurkenningu heldur til ótilgreinds fjölda verktaka sem geta unnið þessi verkefni samhliða alls konar öðrum verkefnum. Það veldur flækjum í framkvæmd og öðru sem gerir að verkum að verði frumvarpið samþykkt í þessari mynd mun það skapa (Forseti hringir.) mikinn vafa fyrir þá sem eftir þessu fara um hvernig með eigi að fara.