140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan fagna ég því að verið er að fá sérfræðinga á sviði lögfræði til að vinna þessa vinnu og tel reyndar að æskilegt hefði verið að það gerðist á fyrri stigum. Við vitum að þetta mál hefur tekið ýmsar dýfur á leiðinni, það hafa verið ýmsir kollhnísar á leiðinni. Án þess að ég vilji fara að þræta um fortíðina er það jákvætt að nú verða hæfir lögfræðingar settir í þetta verk.

Það dregur reyndar örlítið úr gleði minni að formaður nefndarinnar hefur lýst því yfir, bæði í nefndinni og hér í þingsal, að verksvið þeirra eða umboð verði tiltölulega þröngt, því verði markaður þröngur bás. Ég held að opnara umboð hefði ótvírætt verið gagnlegra, meðal annars (Forseti hringir.) í ljósi þeirrar gagnrýni sem þegar hefur komið fram opinberlega á tillögu stjórnlagaráðs.