140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara þeirri spurningu sem sneri að stjórnarskrárnefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar get ég tekið undir það með hv. þingmanni að vinnulagið þar var ágætt.

Hvað varðar skoðanakannanir kom það fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við vinnslu þessa máls að það væri gerlegt og gæti jafnvel verið skynsamlegt að fara í viðamikla skoðanakönnun til að leita eftir tilteknum sjónarmiðum, það væri þá hægt að spyrja með dálítið öðrum hætti en gert er samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu — það eru náttúrlega ákveðnir annmarkar á því hvernig það er gert. Ég get sagt fyrir mig og held reyndar að ég hafi lýst þeirri skoðun minni fyrr í þessari umræðu að mér finnst alveg koma til greina að skoða það. Að sama skapi segi ég að málið þurfi þá að vera nógu þroskað til að slík skoðanakönnun skili einhverju. Það er megingagnrýni mín. Ég tel málið ekkert vera komið á það stig að hægt sé að spyrja út í neina fleti þess enn. Það þarf að vinna við það miklu lengur.