140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki get ég deilt þeirri skoðun með hv. þingmanni að þessi mál séu ekki í óvissu þegar það gerist að sjálfur forseti Íslands, fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði, segir okkur við setningu Alþingis hinn 1. október síðastliðinn að verið sé að gera grundvallarbreytingar á skipan forsetaembættisins, verið að færa því völd sem það hafði ekki haft áður og gera það þannig úr garði að forsetinn hafi beina aðkomu að myndun ríkisstjórna, sem er miklu líkara því sem við þekkjum til að mynda í Bandaríkjunum og í Frakklandi. Með ýmsum slíkum breytingum, skipun í dómaraembætti og þess háttar og verið sé að færa forsetanum þau völd frá ráðherrunum, er auðvitað óvissa uppi.

Það getur vel verið að túlkun þeirra sem stóðu að tillögum stjórnlagaráðs, að minnsta kosti þeirra sem mættu á þann fund sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, sé önnur, en óvissan er engu að síður til staðar. Óvissan hefur verið vakin með því að bent hefur verið á þetta. (Forseti hringir.) Sú óvissa bendir að minnsta kosti ekki til þess að nægilega vel hafi tekist til við að skrifa þennan texta.