140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Látum vera þegar spurt er um heilbrigðisþjónustu en þegar sagt er að í stjórnarskrá eigi að tryggja öllum rétt til að njóta andlegs og líkamlegs heilbrigðis á hæsta stigi þá fer að verða erfitt að framfylgja stjórnarskránni, held ég. En auðvitað er það eitthvað sem við hljótum að fá álit sérfræðinga á í framhaldinu. Það hafa komið fram sjónarmið um það eins og mörg önnur ákvæði mannréttindakaflans.

En það var ekki það sem ég ætlaði að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson um heldur ætlaði ég að biðja hann, af því að það var nýtt sem kom fram í ræðu hans að von væri á fleiri breytingartillögum frá honum og fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins, að greina okkur örlítið meira frá þeim tillögum sem þar eru á ferð.

Auðvitað er þetta áhugavert. Það liggur fyrir í málinu að annars vegar er lagt til að spurt sé hvort fólk vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og hins vegar eru af hálfu meiri hlutans tínd út fimm tiltekin atriði sem spurt er um sérstaklega. Staðreyndin er hins vegar sú að breytingar eða álitamál í tillögum stjórnlagaráðs eru miklu fleiri en þessi fimm.

Við höfum, sumir þingmenn og nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, reynt að bæta úr þessu með því að bæta við spurningum sem, eins og ég sagði fyrr í umræðunni, eru varatillögur. Ef meiri hluti þingsins telur að efna eigi til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu þá viljum við leggja okkar spurningar inn í púkkið. Ég hefði gaman af að heyra, ef hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gæti upplýst okkur um það, á hvaða slóðum hann og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins eru í þeim efnum.