140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fá að segja að ekki hefur farið fram nein sérstök liðskönnun innan þingflokks framsóknarmanna um einstakar breytingartillögur. Við hv. þm. Ásmundur Einar Daðason munum hins vegar leggja fram fimm til sex tillögur sem verið er að ganga frá. Flestar hafa ákveðinn vinkil sem skýrist kannski af því hvaðan við komum. Þær eru settar fram til að sýna fram á að spyrja þurfi annarra spurninga þegar til dæmis er spurt um jöfnun atkvæða og persónukjör, ýmislegt því tengt, og ekki síst vegna nokkurra tillagna sem eru í tillögum stjórnlagaráðs.

Við viljum til dæmis að spurt verði um dreifingu útgjalda ríkisins, hvort ekki sé rétt að það sé jafnað. Flestum er kunnugt, eins og ég kom inn á fyrr í dag, að tvær af hverjum þremur krónum sem framleiddar eru á landsbyggðinni fyrir þjóðina verða eftir á höfuðborgarsvæðinu. Menn hljóta að spyrja sig hvort það kalli þá ekki á jafnari skiptingu þegar gæðunum er svo deilt út aftur.

Við höfum í huga að velta fyrir okkur spurningum varðandi samgöngur til dæmis sem er einn af grunnþáttum samfélagsins. Samgöngur eru ekki síður mikilvægar en dýraverndin í 22. gr., eða hvað það var, ég man það ekki akkúrat núna. Það eru svona hlutir sem maður hreinlega spyr sig að þegar maður les í gegnum þær tillögur sem hafa komið fram. Ég veit að þær eru settar fram með gott eitt í huga en þá vantar eitthvað fleira inn ef þetta á að vera tæmandi listi.