140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:58]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar í framhaldi af ræðu hv. þingmanns að vekja athygli hans og eftir atvikum fá afstöðu hans til þeirrar breytingartillögu frá meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessari umræðu sem snýr að jöfnun atkvæðisréttar. Ástæðan fyrir því að ég vil draga þetta fram er sú að mér finnst hún dálítið lýsandi fyrir það hvernig mál geta þróast í ferli. Þegar þjóðfundurinn var haldinn fyrir nokkrum missirum var ein af niðurstöðunum að það ætti að jafna atkvæðisréttinn. Ég er ein þeirra sem telja að það sé ástæða til að gæta að landsbyggðarsjónarmiðum þegar kemur að atkvæðisréttinum og tel ekki heppilegt að fulltrúar á Alþingi þjappist um of á höfuðborgarsvæðið. Það sem er áhugavert við þetta og mig langar til að ræða við hv. þingmann er að þegar stjórnlagaráð fjallar síðan um tillögurnar og mótar afstöðu sína með þetta í farteskinu frá þjóðfundinum varð það ekki niðurstaða stjórnlagaráðsins að það ætti að jafna atkvæðisréttinn en engu að síður er það tillaga af hálfu meiri hlutans að spyrja að þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef velt fyrir mér hvort það sé þannig með þetta tiltekna dæmi að þegar menn setja sig betur inn í það, skoða það nánar, sjá menn að það er ástæða fyrir því að menn hafa viljað haga kjördæmaskipaninni með ákveðnum hætti. Gæti þetta þá verið dæmi um það hversu mikilvægt það er að mál fái að þróast í rólegheitum áfram? Er ekki verið að snúa til baka frá þeirri þróun með þeirri breytingartillögu sem þarna er lögð til af hálfu meiri hlutans?