140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hressileg andsvör.

Í 62. gr. núgildandi stjórnarskrár stendur, með leyfi forseta:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum.“

Í tillögum stjórnlagaráðs segir í 19. gr.:

„Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Það er í stjórnarskrá landsins í dag að Alþingi getur einfaldlega með lögum breytt kirkjuskipaninni. Við hljótum því að velta fyrir okkur þeirri spurningu ef einhverjar hugmyndir eru uppi um að gera það: Hvers vegna er það ekki gert með lögum? Hvers vegna er verið að breyta þessu ákvæði í stjórnarskránni þegar það getur staðið nákvæmlega eins og það er í dag? Hið nýja ákvæði er á engan hátt öðruvísi að innihaldi en það sem er í stjórnarskránni í dag. Það er orðað á annan hátt og er að mínu viti ekki eins upplýsandi, það er jú ekki kveðið á um að hin evangelíska kirkja sé þjóðkirkja landsins.

Maður veltir því fyrir sér hvort það sé vilji stjórnlagaráðs að skilja þetta eftir opið þannig að setja þurfi sérstök lög um hvort hér sé þjóðkirkja og þá hvaða þjóðkirkja eins og ég benti á. Við erum með þetta ákvæði í stjórnarskránni þannig að það er mjög einfalt, ef fyrir því er meiri hluti, að breyta þessu með lögum, annaðhvort að fella það út að evangelísk kirkja sé þjóðkirkja eða að einhver önnur sé það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi einhverja hugmynd um hvers vegna þetta er með þessum hætti í tillögum stjórnlagaráðs.