Öryggi lögreglumanna

Mánudaginn 21. maí 2012, kl. 15:28:01 (10545)


140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

öryggi lögreglumanna.

[15:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum búið og búum vonandi enn þá í frekar afslöppuðu og öruggu samfélagi en því er samt ekki að neita að samfélag okkar líkist sífellt meira og meira þeim samfélögum sem við þekkjum næst okkur. Ég nefni bara Norðurlöndin og önnur lönd varðandi glæpagengi og afbrot og allt sem tengist því. Þar af leiðandi höfum við reynt að leggja áherslu á þessi mál á þingi, t.d. með frumvörpum sem lögð hafa verið fram um auknar rannsóknarheimildir og tillögum um að fara í grundvallarskilgreiningar á mannaflsþörf og hvernig við viljum sjá lögregluna, og við höfum lagt fram tillögu um að banna hreinlega glæpagengi. Allt lýtur þetta að því að reyna að skapa þjóðinni betra umhverfi og lögreglunni betra starfsumhverfi. Við hljótum því að kalla eftir því að í fjárlögum næsta árs, en ég veit að þessa stundina er verið að vinna fjárlagamálið í ráðuneytunum, verði gert ráð fyrir því að hægt verði að veita aukið fjármagn til lögreglunnar (Forseti hringir.) til að hún geti eflst og til að hægt sé að fjölga lögregluþjónum þannig að öryggi þeirra sé ekki stefnt í hættu.