140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég hef áður sagt eigum við hv. þingmaður fleira sameiginlegt en ekki. Ég er enn þeirrar skoðunar að klára eigi aðildarviðræðurnar. Þær munu taka lengri tíma og ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að menn staldri við og hugsi málið í ljósi ástandsins í Evrópu. En ég vil minna á það sem oft hefur verið sagt um til dæmis skattalækkanir sem við sjálfstæðismenn höfum iðulega staðið fyrir í stefnu okkar. Þá heyrist alltaf sami kórinn: Það er aldrei rétti tíminn til að lækka skatta. Hið sama má kannski segja með Evrópusambandið, það er aldrei rétti tíminn, annaðhvort erum við of vel stödd eða of illa stödd.

Ég held hins vegar að við þurfum að vanda til verka og það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Það getur vel verið að það sé rétt sem hv. þingmaður segir: Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gerir í ríkisstjórninni. Þannig er það í svo mörgum málum, ég gæti nefnt fiskveiðistjórnarmálið og rammaáætlun, það er endalaust hægt að tala um mál sem ríkisstjórnin getur ekki einu sinni komið með fullbúin inn í þingsal af því að hún kemur sér ekki saman um það við ríkisstjórnarborðið hvernig þau eiga að líta út til lengri tíma. Og þá er farið í að kaupa Hreyfinguna og að sjatla málin. Og á hverju bitnar það? Stefnuleysið er algjört. Þar fyrir utan er ekkert gert á meðan í samfélaginu, það er ekki farið í framkvæmdir, fólki er ekki blásið í brjóst bjartsýni til að sjá fram úr vandanum. Nei, miklu heldur týna menn sér í því að halda í valdataumana sem eru að verða mjög kostnaðarsamir fyrir ríkið allt saman og þjóðina eins og framsóknarmenn hafa réttilega bent á.

En málið er mikilvægt og eins og ég sagði er ástandið í samfélaginu og í Evrópu þannig að það er einfaldlega betra að þjóðin taki afstöðu. Þó að ég vilji klára viðræðurnar getum við bara farið í þá umræðu og þar tala ég fyrir því að menn kjósi með því að haldið sé áfram. Ég tel best að með þeirri leið að spyrja þjóðina reynum við að tryggja sem mesta þátttöku til að vilji hennar verði sem skýrastur og ekki verði hægt að rangtúlka hann eins og ég er hrædd um (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn geri ef kosningaþátttakan verður lítil. Þess vegna er það enn mín skoðun að við eigum að láta svona könnun fara fram samhliða þingkosningum.