140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áður í tveimur stuttum ræðum farið yfir tvær þeirra þriggja breytingartillagna sem ég legg fram við það mál sem hér er til umræðu, annars vegar tillöguna um hvort fólk teldi mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár væru auðskiljanleg og hins vegar tillöguna um hvort breytingar á stjórnarskrá ættu að miða að því að um hana yrði sem víðtækust sátt, sem sagt tillögu um að spurt yrði þessara spurninga ef til þessarar skoðanakönnunar kæmi.

Þriðja tillagan er svohljóðandi:

„Við 3. efnismgr. bætist nýr töluliður er orðist svo: Er mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár Íslands séu framkvæmanleg?“

Þessi spurning eins og þær tvær fyrri er spurning sem hefði líklega ekki þurft að spyrja fyrir fáeinum árum. Á þeim tíma voru vinnubrögð við breytingar á stjórnarskrá og þau viðhorf sem ríktu til slíkrar vinnu töluvert önnur en þau sem birtast okkur nú, eins og komið hefur fram fyrr í umræðunni. Nú er því meðal annars haldið fram að það skipti svo sem ekki öllu máli hvort greinar í stjórnarskrá séu beinlínis framkvæmanlegar því að þær þurfi bara að lýsa ákveðnum vilja. Menn hafa nefnt greinar í tillögum stjórnlagaráðs er varða heilbrigðismál þar sem stjórnarskráin á að tryggja öllu fólki heilsu og líf.

Nú held ég að meira og minna allir séu sammála um að við í þessu landi eigum að byggja upp það kerfi sem skapar sem mest tækifæri fyrir íbúana til að lifa heilsusamlegu lífi og njóta góðrar heilbrigðisþjónustu. Þá er líka mikilvægt að því sé lýst í stjórnarskránni á hvaða forsendum á að gera slíkt. Það dugar ekki að segja bara í stjórnarskrá að allir hafi rétt á því að vera heilbrigðir ef ríkið getur ekki framkvæmt það. Ef menn lofa einhverju í stjórnarskránni sem ekki er hægt að framkvæma eða standa við eða að minnsta kosti skapar möguleika á mjög mismunandi túlkun á því hvernig eigi að framkvæma missir stjórnarskráin að miklu leyti gildi sitt.

Gildi stjórnarskrár liggur ekki hvað síst í því að eftir henni verður að fara. Góð stjórnarskrá á að vera skrifuð þannig að allt sem þar birtist sé auðskiljanlegt þannig að meira og minna allir skilji það á sama hátt og að það sé hægt að fara eftir því. Ef menn fara ekki eftir því þarf að vera hægt að grípa inn í og segja: Nei, hingað og ekki lengra, þetta er brot á stjórnarskrá. Þar af leiðandi vegur það að réttindum almennings ef greinar stjórnarskrár eru orðaðar með þeim hætti að það sé ekki ljóst hvernig á að hrinda þeim í framkvæmd. Það skapar óvissu sem er engum til gagns þannig að þessar breytingartillögur eru lagðar fram til þess að, ef í þetta verður ráðist verði, eins og ég segi, þessara grundvallarspurninga spurt, spurninga sem hefði ekki þurft að spyrja fyrir nokkrum árum en er komið fullt tilefni til að spyrja nú vegna þess hvernig umræðu um stjórnarskrána hefur verið háttað, vegna þeirra tillagna sem í umræðunni hafa verið og tilrauna til að verja þær tillögur. Jafnvel þó að ekki hafi verið sýnt fram á framkvæmanleika þeirra eða jafnvel þó að skilningur manna á þeim sé mjög misjafn hefur það verið varið og virðist vera skoðun hluta þingmanna, ég held reyndar ekki meiri hluta þingmanna en hluta þingmanna, að stjórnarskrá megi líta út nokkurn veginn eins og kosningabæklingur stjórnmálaflokks, lýsing á því að hverju menn stefni, hvernig þeir vilji helst hafa landið í framtíðinni, nokkurs konar framtíðarsýn stjórnmálahreyfingar.

Það er einmitt það sem stjórnarskrá er ekki ætlað að vera. Hún á að vera grundvallarlög sem hægt er að fara eftir, sem allir skilja meira og minna á sama hátt. Það má segja um núverandi stjórnarskrá að hún er nokkuð gölluð hvað þetta varðar, menn greinir á um túlkun ýmissa ákvæða þar, enda viljum við laga núverandi stjórnarskrá og færa hana til betra horfs. Um það er ekki ágreiningur þó að annað mætti stundum ætla af umræðunni. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að við gerum þetta allt í sátt og samlyndi svoleiðis að allir fallist á að þetta séu grundvallarlögin sem við ætlum öll að starfa eftir.