140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að í þessari umræðu sé öllu haldið til haga, þar á meðal því sem hv. þingmaður ætlar að koma að í sínu seinna andsvari um þær upplýsingar sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson minnti okkur á í ræðu sinni áðan. Við verðum að passa að þegar þessu máli lýkur hafi allt komið fram sem nauðsynlegt er til að þeir sem á eftir koma læri af verklaginu og þessu ferli öllu saman.

Nú eru allar líkur á að atkvæðagreiðsla um þetta mál fari fram í haust eða í það minnsta eru nú flestir á því að einhvern tímann eigi þjóðin að koma að því að segja álit sitt á nýrri stjórnarskrá. Ég sakna þess svolítið að í þessari umræðu hafi ekki komið fram hugmyndir frá stjórnarliðum um hvað taki við. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir vegna þess að við höfum margrætt það, margir hverjir þingmenn, að ekki er hægt að horfa til haustsins með það hangandi yfir sér að kannski taki við önnur eins hringekja og er búin að vera um þetta mál núna í allt of langan tíma.

Það þarf líka að setjast niður í haust áður en þingið byrjar og reyna að setja málið í einhvern farveg þannig að sómi sé að. Að minnsta kosti þarf hiklaust mikinn meiri hluta þingmanna til að standa að breytingum á stjórnarskrá frekar en nauman meiri hluta sem er kannski fenginn með því að semja um einhver tiltekin mál. Þetta á ekki að vera þannig að maður semji um (Forseti hringir.) breytingar á stjórnarskrá í pólitískum kappleik.