140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þessi salur hefur oft og tíðum verið fámennur af stjórnarliðum í þessari umræðu. Til upplýsingar er algjörlega ljóst að enginn stjórnarliði er innan dyra núna. Það eru eðlilegar skýringar á því vegna þess að okkur barst það til eyrna að nú væru þingflokksfundir hjá báðum stjórnarflokkunum, bæði hjá þingflokki Vinstri grænna og hjá þingflokki Samfylkingarinnar.

Ég verð að gera athugasemd, frú forseti, við það að þingfundur skuli vera haldinn á sama tíma og þingflokksfundir stjórnarflokkanna, ekki að þeir megi ekki funda hvenær sem þeim sýnist en það er lágmarkskurteisi við hið háa Alþingi að þingmenn, nefndarmenn og talsmenn þess máls sem við erum að ræða, sýni okkur þann sóma að sitja yfir umræðunni og svara þeim spurningum sem til þeirra er beint.

Frú forseti. Ég óska eftir því að gert verði hlé á þessum þingfundi á meðan þingflokksfundir standa yfir.