140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Honum hefur verið tíðrætt um þær reglugerðarheimildir sem settar eru í frumvörpum og gefa ráðherrum ansi frjálsar hendur. Í þessu fráviksfrumvarpi um ýmiss konar skattaívilnanir er í 8. gr. kveðið á um opna reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að útskýra. Ég tek undir með þingmanninum að það er sérstakt að ekki skuli vera minnst á um hvað reglugerðirnar eiga að vera í nefndarálitinu. Ég vildi heyra álit þingmannsins á því hvað hann teldi að væri lágmark að stæði í nefndarálitinu varðandi þá þætti.

Aðeins um þessa opnu heimild ráðherra, sem er gjarnan sett í frumvörp í dag, þá held ég að þetta sé til komið frá þeim dögum þegar Friðrik Sophusson var fjármálaráðherra. Þá var svokölluð nýskipan í ríkisfjármálum og var hugmyndafræðin sú að setja inn rammafjárlög. Síðan hefur þróunin orðið sú að sú hugsun sem ég held að megi alveg segja að hafi verið ágæt og menn eru kannski að færa sig inn á aftur núna að setja rammafjárlög sem síðan verða útfærð nánar á haustin, rammafjárlög sem eru þá sett að vori. Þessi hugmynd um rammalöggjöf hefur síðan farið yfir allt lagasviðið á undanförnum árum og áratugum þannig að þessi reglugerðarheimild er orðin mjög algeng. Ef við tökum sem dæmi fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem hv. þm. Jón Bjarnason, þáverandi ráðherra, lagði fram þá held ég að orðasambandið „heimild ráðherra“ hafi komið fyrir milli 50 og 60 sinnum í frumvarpi hans. (Forseti hringir.)

Hvað mundi þingmaðurinn vilja sjá í nefndarálitinu að lágmarki um þetta atriði?