140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Álitamálið um þennan lið spurninganna er þetta: Er tilefni til þess að vera á sama tíma með í stjórnarskránni ákvæði sem heimilar forseta að vísa máli til þjóðaratkvæðis og að tryggja tilteknu hlutfalli kosningarbærra manna réttinn til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál? Það er stóra álitaefnið. Við fáum engan botn í það hér. Eins og spurningunni er teflt fram sýnist mér að menn hafi gefið sér fyrir fram að áfram verði ákvæði líkt því sem er í 26. gr. að finna í stjórnarskránni. Hvers vegna gerðu menn það? Hvers vegna gefa menn sér að slíkt ákvæði þurfi að lifa samhliða þessu? Og hvert verður inntak þess ákvæðis ef við búum til nýtt stjórnarskrárákvæði þar sem tiltekið hlutfall manna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu? Breytist þá ekki inntak greinarinnar sem mundi líkjast núverandi 26. gr.? Þetta er umræða sem á heima í þingsal. (Forseti hringir.) Hún hefur ekki verið tekin og við fáum engan botn í hana með því að fara með þessa spurningu eina í þjóðaratkvæði.