Atkvæðagreiðsla um breytingartillögu

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 11:01:43 (11199)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um breytingartillögu.

[11:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Eitthvað er hæstv. forsætisráðherra farið að förlast minnið. Í óundirbúnum fyrirspurnum sumarið 2009 sagði hæstv. forsætisráðherra aðspurð: „Við skulum vona að atkvæðagreiðslan verði með þeim hætti að þessi ríkisstjórn starfi áfram.“ Sama dag og sú atkvæðagreiðsla fór fram sagði hv þm. Birgitta Jónsdóttir, með leyfi frú forseta:

„Í dag var hið andlega ofbeldi stundað fyrir opnum tjöldum af konu sem eitt sinn var álitin heilög en ég hygg að sá ljómi sé óðum að hverfa því völd geta með sanni gert vænsta fólk að skrímslum. Það að horfa á hana þjarma að þingmönnum samstarfsflokksins eins og raun bar vitni og heyra mátti hótanir um að ef viðkomandi greiddi ekki atkvæði með samningnum væri sá hinn sami ábyrgur fyrir falli ríkisstjórnarinnar.“

Þetta sagði hv. þm. Birgitta Jónsdóttir á sínum tíma. Það er öllum í fersku minni hvernig þetta var. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hafði enga ástæðu til að ljúga á sínum tíma. (Forseti hringir.) Þess vegna endurtek ég spurninguna: Var sambærilegum hótunum beitt í gær líkt og hæstv. forsætisráðherra gerði árið 2009 og af hverju er hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að segja ósatt þegar verið er að tala um að hún hafi beitt slíkum hótunum sumarið 2009?