Ummæli stækkunarstjóra ESB um framgang viðræðna

Miðvikudaginn 30. maí 2012, kl. 10:33:11 (11471)


140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

ummæli stækkunarstjóra ESB um framgang viðræðna.

[10:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég heyrði ekki ummæli stækkunarstjórans en ég heyrði þau lesin upp í þinginu fyrir nokkrum dögum og hv. þingmaður vitnar til þeirra líka. Ég tel að þegar stækkunarstjórinn segir að öll spil verði komin á borðið eigi hann við að búið verði að sýna á spilin þannig að búið verði að opna alla kafla. Stækkunarstjórinn er bjartsýnn um það, það hefur komið fram áður. En ef hv. þingmaður spyr mig hvort ég telji að búið verði að ganga frá samningum fyrir kosningar á næsta ári í erfiðustu köflunum eins og til dæmis sjávarútvegi, tel ég að það sé mjög umhendis að komast að þeirri niðurstöðu. Það er ekkert sem bendir til þess núna að svo verði. Það er auðvitað ekki hægt að útiloka að þegar til dæmis sjávarútvegskaflinn verður að lokum opnaður, gangi Evrópusambandið að öllum okkar óskum í upphafi. En mér hefur lærst að lífið er öðruvísi en svo að menn fallist með slíkum hætti á þær hugmyndir sem mótaðilar hafa í samningaviðræðum af þessu tagi. Ég á ekki von á því. Það er mitt raunsæja mat. Ég tel að stækkunarstjórinn hafi fyrst og fremst, eins og hann sagði í viðræðum við mig þegar hann var í heimsókn, átt við að hann gerði sér góðar vonir um að búið væri að sýna á öll spilin með því að opna alla kafla og afstöður af hálfu beggja lægju þar með fyrir.