140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið við andsvari mínu. Hann átti eftir að svara einni spurningu frá mér en honum gefst kannski tækifæri til þess í síðara svari.

Ég vil ítreka varðandi hugtakið aðlögun að mikið er talað um aðlögunarviðræður í þessu sambandi og ég skil hugtakið þannig að gerð sé krafa um að við lögum okkar lagaumgjörð, regluverk og stofnanir að því sem gerist í Evrópusambandinu meðan á þessu ferli stendur. Af því tilefni hlýt ég að spyrja: Er þingmanninum kunnugt um að lögum hafi nú þegar verið breytt að einhverju leyti, reglugerðum eða einhverjum stofnunum eða nýjar settar á laggirnar til að uppfylla það sem kerfi Evrópusambandsins gerir ráð fyrir? Veit þingmaðurinn til þess að það hafi verið gert og ef svo er getur hann þá nefnt dæmi þar að lútandi?