140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vafalítið mun þess vera freistað í samningum í einstökum tilvikum að fá varanlegar undanþágur. Ég hef þó sagt að það yrði einungis í fáum tilvikum. Eins og siðvenja er í aðildarviðræðum ríkja og Evrópusambandsins reyna menn meðal annars að fá tímabundinn frest þegar þeir telja að þeir þurfi ákveðinn tíma til að geta breytt hugum sínum og þurfa til þess frest. En ég hef líka sagt það alveg ærlega að ég tel að Ísland þurfi sérlausnir í málaflokkum eins og til dæmis á sviði sjávarútvegs og það er mjög auðvelt að færa rök fyrir því að sérstaka Íslands sé slík að þess þurfi og sömuleiðis að benda á að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna sem Evrópa rekur var ekki sniðin að löndum eins og Íslandi.

Sérstaða okkar birtist til dæmis í því, sem er algerlega þveröfugt við það sem Norðmenn bjuggu við á sínum tíma, að það er engin sameiginleg efnahagslögsaga með Íslandi og Evrópusambandslöndum eins og gilti til dæmis varðandi Noreg. Ég held að hægt sé að færa sterk rök fyrir því að sérlausnir á slíkum sviðum séu eðlilegar. Ef hv. þingmaður fer í bókaskápinn sinn mun hann finna þar skýrslu sem unnin var undir forustu annars af leiðtogum lífs hans, fyrrverandi ráðherra Björns Bjarnasonar, Evrópuskýrsluna svokölluðu. Þar er heill kafli um það hvernig ýmis lönd hafa fengið sérlausnir á margvíslegum sviðum. Vissulega er þar einkum að finna sérlausnir á sviði landbúnaðar og það er líka rétt hjá hv. þingmanni að þær eru ýmsar með þeim hætti að það væri hægt að fara þá leið sem hv. þingmaður óttast, að Evrópusambandið taki til baka ákveðnar klæðskerasaumaðar lausnir sem ekki er í gadda slegið í aðildarsamningum viðkomandi þjóða að séu varanlegar. Það er rétt hjá honum. Við þekkjum þessi dæmi (Forseti hringir.) og við munum reyna að varast þau með góðri aðstoð og undir góðu aðhaldi manna eins og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.